Leikmennirnir tveir eru frá Kamerún sem var því aðeins með fjórtán leikmenn á skýrslu í tapinu stóra gegn Svíþjóð í gærkvöld, 37-13.
Greint er frá hvarfi leikmannanna á vefnum Gohandball en ekkert saknæmt mun þó hafa átt sér stað. Samkvæmt kamerúnska blaðamanninum Leocadia Bongben ákváðu leikmennirnir sjálfir að yfirgefa landslið sitt rétt áður en HM hófst, og á kamerúnska handknattleikssambandið að hafa fengið staðfest að ekkert slæmt hafi komið fyrir þá.
Leikmennirnir, sem heita Bénédicte Manga Ambassa og Marianne Batamag, voru með í vináttulandsleik gegn Senegal 26. nóvember en sáust svo hvergi í fyrsta leik Kamerún á HM fjórum dögum síðar.
Bongben segir að hvarf leikmannanna þurfi ekki að koma á óvart. Á síðasta heimsmeistaramóti hafi nefnilega alls fimm leikmenn horfið, og lið Kamerún þurft að spila á ellefu leikmönnum í lokaleik sínum á mótinu.