Handbolti

Á­tján ís­lensk mörk í jafn­tefli í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon skoraði níu mörk fyrir Magdeburg í dag.
Ómar Ingi Magnússon skoraði níu mörk fyrir Magdeburg í dag. Gregor Fischer/picture alliance via Getty Images

MT Melsungen og Magdeburg skildu jöfn er liðin mættust í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag, 29-29.

Heimamenn í Melsungen byrjuðu betur og höfðu yfirhöndina stærstan hluta fyrri hálfleiks. Liðið náði mest fimm marka forystu í stöðunni 14-9, en munurinn var þrjú mörk þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja, staðan 17-14.

Gestirnir í Magdeburg voru þó fljótir að jafna metin í síðari hálfleik áður en Melsungen náði upp þriggja marka forskoti á nýjan leik í stöðunni 22-19. Gestirnir snéru leiknum þó aftur fljótt við og náðu forystunni þegar tæplega stundarfjórðungur var til leiksloka.

Mest náði Magdeburg þriggja marka forystu áður en heimamenn náðu öðru áhlaupi og jöfnuðu metin í 28-28. Liðin skoruðu sitt markið hvort undir lok leiks áður en þau klikkuðu bæði á seinustu sóknum sínum og niðurstaðan varð jafntefli, 29-29.

Ómar Ingi Magnússon var markahæstur íslensku leikmannanna í dag og skoraði níu mörk fyrir Magdeburg og Janus Daði bætti fjórum við fyrir liðið. Arnar Freyr Arnarsson skoraði fimm mörk fyrir Melsungen, en Elvar Örn Jónsson var ekki með vegna meiðsla á meðan Gísli Þorgeir Kristjánsson sat allan tíman á varamannabekk Magdeburg.

Þá skoraði Oddur Gretarsson fimm mörk þegar Balingen-Weilstetten tapaði enn einum leiknum, að þessu sinni gegn Burgdorf. Lokatölur 29-25 gestunum í Burgdorf í vil. Daníel Þór Ingason skoraði eitt mark fyrir B-W í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×