Handbolti

Arnar Birkir marka­hæstur í grátlegu tapi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði sjö mörk fyrir Amo í kvöld.
Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði sjö mörk fyrir Amo í kvöld. Vísir/Vilhelm

Arnar Birkir Hálfdánsson var markahæsti maður vallarins er liðið mátti þola grátlegt eins marks tap gegn Hallby í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld, 30-31.

Arnar Birkir og félagar voru án sigurs í seinustu sex leikjum í öllum keppnum fyrir leik kvöldsins og raunar hafði liðið aðeins unnið einn sigur í seinustu ellefu leikjum sínum síðan í byrjun október.

Eftir jafnar upphafsmínútur í leik kvöldsins fór að halla undan færi hjá Arnari Birki og félögum og gestirnir í Hallby höfðu fimm marka forystu þegar flautað var til hálfleiks, staðan 13-18.

Gestirnir skoruðu fyrsta mark síðari hálfleiks og náðu þar með sex marka forystu, en þá tóku heimamenn loksins við sér og minnkuðu muninn jafnt og þétt. Liðsmenn Amo náðu loksins að jafna í stöðunni 25-25 og tóku forystuna stuttu síðar. 

Heimamenn héldu forystunni allt þar til á lokamínútu leiksins þar sem gestirnir skoruðu síðustu tvö mörkin og unnu að lokum nauman eins marks sigur, 30-31.

Arnar Birkir var markahæsti maður vallarins með sjö mörk fyrir Amo, en liðið situr nú í 11. sæti deildarinnar með 10 stig, jafn mörg og Hallby sem situr sæti neðar.

Á sama tíma unnu Þorgils Jón Svölu Baldursson og félagar í Karlskrona óvæntan níu marka stórsigur gegn Skovde, 22-31. Þorgils komst ekki á blað fyrir gestina, en Karlskrona situr í 11. sæti deildarinnar með 12 stig, líkt og Amo. Skovde situr hins vegar í öðru sæti með 21 stig og sigur hefði komið þeim á toppinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×