Sögusagnir þess efnis hafa lengi verið á kreiki en FH tilkynnti samninginn á samfélagsmiðlum sínum rétt í þessu. Böðvar skrifaði undir fjögurra ára samning. Mikla ánægju mátti greina í meðfylgjandi myndbandi. „Alvöru leikmaður með alvöru hjarta“ er skrifað við færsluna.
Böðvar þreytti frumraun sína með FH árið 2013 aðeins 18 ára gamall, hann fékk svo fleiri tækifæri og var lykilmaður í liðinu á næstu tímabilum þegar FH varð Íslandsmeistari í tvígang árin 2015 og 2016.
Böðvar fluttist svo til pólska félagsins Jagiellonia Bialystok árið 2018. Þar dvaldist hann í þrjú ár áður en hann fluttist til Svíþjóðar en hann lék bæði með Helsingborg og Trelleborg þar í landi.
Böðvar er 28 ára gamall vinstri bakvörður. Hann á 5 A-landsleiki að baki fyrir Íslands hönd og mun án efa reynast FH-ingum mikill liðsstyrkur á komandi misserum.