Aron er þrítugur sóknarmaður sem spilar oftast út á vinstri kanti en getur líka spilað inn á miðjunni.
Aron hefur síðustu ár spilað með danska liðinu Horsens og staðið sig vel. Hann var með 4 mörk í 18 leikjum á síðasta tímabili í dönsku b-deildinni.
Aron hefur verið í atvinnumennsku síðan árið 2015 þegar hann fór frá Fjölni til Tromsö í Noregi. Hann hefur einnig spilað með norska félaginu Start og belgíska félaginu Union SG.
Aron hefur spilað átta A-landsleiki þar af tvo þeirra á síðasta ári. Hann hefur skorað tvö mörk fyrir íslenska A-landsliðið. Aron skoraði 9 mörk í 40 leikjum með Fjölni í efstu deild áður en hann fór út auk þess að spila 55 leiki fyrir Grafarvogsliðið í B-deildinni.
„Aron hefur ákveðið að snúa aftur til Íslands eftir farsælan feril í atvinnumennsku erlendis og erum við í skýjunum yfir því að KR hafi orðið fyrir valinu,“ sagði Gregg Ryder, þjálfari KR á heimasíðu félagsins.
„Það eru ekki bara ótvíræðir knattspyrnuhæfileikar hans heldur vinnusemin, karakterinn og leiðtogahæfileikarnir sem hann býr yfir sem við fögnum hvað mest að fá inn í okkar metnaðarfulla hóp,“ sagði Ryder.
„Aron mun tvímælalaust styrkja liðið okkar mikið og geta stuðningsmenn KR farið að hlakka til komandi tímabils,“ sagði Ryder.
Velkominn Aron!
— KR Reykjavik FC (@KRreykjavik) January 11, 2024
Nánari upplýsingar: https://t.co/RnsZvRiALi
pic.twitter.com/OBVkWkRoTq