KR-ingar eru að byrja vel undir stjórn Gregg Oliver Ryder en liðið vann 4-2 sigur á Fram í sömu keppni fyrir fimm dögum.
Tveir sigrar og níu mörk í tveimur fyrstu leikjunum boða vissulega góða tíma í Vesturbænum á komandi sumri.
Það skiptir líka máli fyrir KR ef Kristján Flóki Finnbogason ætlar að komast aftur í gang.
Kristján Flóki var með tvö mörk og eina stoðsendingu í leiknum í dag. Benoný Breki Andrésson kom inn af bekknum og skoraði tvö mörk í seinni hálfleiknum en fyrsta mark KR-liðsins skoraði Ægir Jarl Jónasson.
Birkir Heimisson og Guðmundur Andri Tryggvason skoruðu mörk Valsmanna sem höfðu unnið 7-1 sigur á Þrótti í sínum fyrsta leik.
Luke Morgan Conrad Rae skoraði tvö mörk í sigrinum á Fram en var með tvær stoðsendingar í leiknum í dag. Hann er leikmaður sem KR-ingar eiga inni frá því síðasta sumar þegar hann fékk ekki mörg tækifæri.
Kristján Flóki skoraði líka fjórða mark KR-inga í 4-2 sigri á Fram og er því kominn með þrjú mörk í fyrsti tveimur leikjum liðsins á undirbúningstímabilinu.
Upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá vefsíðunni fótbolti.net.