Handbolti

Króatísk goð­sögn ó­sátt með liðið: „Eigum að spila í fimmta gír en erum bara í þeim þriðja“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Filip Glavas og félagar hans í króatíska landsliðinu hafa tapað tveimur leikjum í röð á EM.
Filip Glavas og félagar hans í króatíska landsliðinu hafa tapað tveimur leikjum í röð á EM. getty/Tom Weller

Fyrrverandi heims- og Ólympíumeistari með króatíska handboltalandsliðinu er ekki hrifinn af frammistöðu þess á Evrópumótinu í Þýskalandi.

Ísland mætir Króatíu í dag í þriðja leik sínum í milliriðli 1 á EM. Bæði lið hafa tapað báðum leikjum sínum í milliriðlinum en Króatar eru með eitt stig, sem þeir tóku með sér úr riðlakeppninni, en Íslendingar ekki neitt.

Mirza Dzomba, sem varð heimsmeistari með Króatíu 2003 og Ólympíumeistari 2004, finnst ekki mikið til spilamennsku króatíska liðsins á EM koma. 

„Ég veit ekki hvað ég á að segja. Ef ekki væri fyrir markverðina okkar á EM væri niðurstaðan enn verri. Við eigum að spila í fimmta gír en erum bara í þeim þriðja,“ skrifaði Dzomba í pistli fyrir Index.

Hann segir að Króatar séu alltof mistækir í sóknarleiknum. Í tapinu fyrir Ungverjalandi á laugardaginn tapaði Króatía boltanum til að mynda þrettán sinnum. 

„Ég trúi ekki hversu mörg mistök við gerum í sókninni. Við köstuðum boltanum frá okkur að ástæðulausu og fengum á okkur óþarfa mörk. Þetta skemmir fyrir þér til lengri tíma litið,“ skrifaði Dzomba.

„Allir vita þetta en samt gerum við sömu heimskulegu mistökin. Af einhverjum ástæðum verðum við stressaðir og vitum ekki hvað skal gera.“

Leikur Íslands og Króatíu hefst klukkan 14:30. Honum verða gerð góð skil á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×