Selfyssingar, sem leika í Grill 66-deildinni og tróna þar á toppnum, settu tóninn snemma og skoruðu fyrstu sex mörk leiksins gegn botnliði Olís-deildarinnar. Norðankonur komu ekki boltanum í netið fyrr en eftir um níu mínútna leik og strax var orðið ljóst að gestirnir ættu langt kvöld framundan.
Heimakonur náðu tíu marka forystu eftir tæplega tuttugu mínútna leik í stöðunni 12-2 og Selfyssingar leiddu með þrettán mörkum þegar flautað var til hálfleiks, staðan 19-6.
Í síðari hálfleik hægðist nokkuð á markaskorun Selfyssinga, en liðið jók þó forskot sitt á upphafsmínútunum. Mest náði liðið tuttugu marka forskoti og heimakonur unnu að lokum afar öruggan nítján marka sigur, 34-15. Selfyssingar eru þar með á leið í undanúrslit Powerade-bikars kvenna, en KA/Þór situr eftir með sárt ennið.
Katla María Magnúsdóttir var markahæsti leikmaður vallarins með fimmtán mörk fyrir Selfyssinga, en í liði KA/Þórs var Nathalia Soares Baliana atkvæðamest með þrjú mörk.