Handbolti

Öruggt hjá Mag­deburg í toppslagnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Janus Daði skoraði þrjú mörk í kvöld.
Janus Daði skoraði þrjú mörk í kvöld. Vísir/Getty

Ómar Ingi Magnússon og Janus Daði Smárason voru í liði Magdeburg í kvöld sem vann góðan útisigur á Kiel í þýska handboltanum. Þá var íslenskur þjálfaraslagur í leik Hannover-Burgdorf og Gummersbach.

Fyrir leikinn í kvöld var Magdeburg jafnt Fusche Berlin að stigum í efsta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar en meistarar Kiel í fjórða sæti sex stigum þar á eftir.

Jafnt var í upphafi leiks en í stöðunni 5-5 skoraði Magdeburg fimm mörk í röð og náði frumkvæðinu. Kiel náði að minnka muninn fyrir hálfleik þar sem staðan var 15-13 en Magdeburg náði fljótlega fjögurra marka forystu á ný.

Það bil náði Kiel ekki að brúa og gestirnir úr Magdeburg juku muninn undir lokin og unnu að lokum 33-26 sigur. Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur mörk og gaf fimm stoðsendingar í leiknum og Janus Daði Smárason skoraði þrjú og átti þátt í fjórum öðrum. Gísli Þorgeir Kristjánsson var fjarverandi vegna meiðsla.

Heiðmar hafði betur gegn Guðjóni Val

Í Hannover mættust heimamenn í Hannover-Burgdorf og Gummersbach. Gestirnir byrjuðu betur og komust í 12-8 um miðjan fyrri hálfleik en heimaliðið náði vopnum sínum á ný og minnkaði muninn fyrir hlé. Staðan að loknum fyrri hálfleik 15-14 gestunum í vil.

Síðari hálfleikur var jafn á flestum tölum til að byrja með en í stöðunni 25-25 skoraði Hannover-Burgdorf fjögur mörk í röð og Gummersbach í vandræðum. Gestunum tókst ekki að minnka muninn nema niður í tvö mörk og Hannover-Burgdorf fagnaði að lokum þriggja marka sigri, lokatölur 32-29.

Elliði Snær Viðarsson komst ekki á blað hjá Gummersbach í kvöld en liðið, sem þjálfað er ef Guðjóni Val Sigurðssyni, er í 8. sæti deildarinnar. Lærisveinar Heiðmars Felixsonar í Hannover-Burgdorf er í 6. sæti eftir sigurinn í kvöld og er þremur stigum á undan Gummersbach.

Þá var skoraði Haukur Þrastarson tvö mörk í fjórtán marka sigri Kielce gegn Piotrkowianin í pólska handboltanum. Lokatölur 41-27 en Kielce er jafnt Wisla Plock að stigum á toppi pólsku deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×