Á Íslandi tala margir um að reyna að skipta um starf á fimm til sjö ára fresti.
Tekið skal fram að starfsþróun innan vinnustaðar flokkast er líka leið til að skipta um starf. Þannig að sumir starfa áfram fyrir sama vinnuveitenda, þótt starfið þeirra breytist.
En hvers vegna að skipta svona ört um starf? Því hér áður fyrr þótti það nokkuð gott og var mun algengara að fólk ynni hjá sama vinnuveitenda út ævina. Í það minnsta í mörg ár eða einhverja áratugi.
Að skipta um starf snýst að mörgu leyti um það hvað þú vilt og hvernig þér líður. Dæmi:
- Finnst þér þú vera búin að læra það sem þú munt læra af þessu starfi?
- Ertu að stefna að betur launuðu starfi eða starfi sem veitir þér meira jafnvægi einkalífs og vinnu?
- Er þér farið að leiðast eða líða eins og þú sért ekki að upplifa áskoranir í vinnunni þinni?
Eins gætu verið breytingar hjá vinnuveitandanum. Hagræðingar, niðurskurður, skipuritsbreytingar, aukin sjálfvirknivæðing og svo framvegis.
Vefsíðan Indeed er með ýmiss góð ráð sem flokka má undir starfsframaráðgjöf. Samkvæmt þeim ættum við að horfa til breytinga ef okkur finnst:
- Þér finnst þú vera farin að upplifa stöðnun
- Ef þér finnst gildin þín ekki eiga samleið með vinnuveitandanum þínum
- Þig langar að upplifa öðruvísi vinnustaðamenningu
- Þig langar til að takast á við fleiri krefjandi verkefni og áskoranir
- Þér finnst styrkleikarnir þínir ekki njóta sín til fulls í núverandi starfi
- Þig langar til að prófa allt öðruvísi starf eða vettvang
- Þú þarft á hærri launum að halda og telur meiri líkur á þeim annars staðar
Auðvitað geta tækifærin til að skipta um starf verið mismunandi. Til dæmis vegna búsetu eða starfsvettvangs.
En ef þú upplifir vinnuna þína ekki ánægjulega eða gefandi að miklu leyti, er alltaf tilefni til að velta fyrir sér leiðum og lausnum til breytinga. Hér er aftur minnt á að breyting á starfi hjá sama vinnuveitanda, getur líka verið leið.