Ungstirnið Arda Güler hefur ekki fengið mörg tækifæri með spænska stórveldinu Real Madrid í vetur en hann nýtti sannarlega sénsinn í sigri á Real Sociedad í kvöld.
Real heimsótti sterkt lið Real Sociedad til Baskalands og gat náð 14 stiga forskoti á toppi deildarinnar með sigri. Carlo Ancelotti stillti upp nokkuð breyttu liði en hann er eflaust með undanúrslitaleik við Bayern Munchen í Meistaradeildinni á þriðjudag í huga.
Güler var á meðal þeirra sem fékk tækifærið, rétt eins og Joselu, Brahim Diaz og Dani Ceballos en þessi ungi Tyrki greip það svo sannarlega.
Hann skoraði eina mark leiksins með fínni afgreiðsli eftir glimrandi fyrirgjöf Dani Carvajal frá hægri. 1-0 úrslit leiksins og Real með 84 stig á toppi deildarinnar eftir 33 leiki. Barcelona er með 14 stigum minna, 70 stig, í öðru sæti og aðeins 18 stig í pottinum hjá Katalóníuliðinu.
Því aðeins tímaspursmál hvenær bikarinn fer til spænsku höfuðborgarinnar.