Íslenski boltinn

Sharts í aðal­hlut­verki í endurkomusigri Stjörnunnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stjarnan er komin á blað í Bestu deild kvenna.
Stjarnan er komin á blað í Bestu deild kvenna. vísir/diego

Hannah Sharts var í aðalhlutverki þegar Stjarnan vann 2-3 endurkomusigur á Keflavík í Bestu deild kvenna í dag. Hún fékk á sig vítaspyrnu í fyrri hálfleik en skoraði tvö mörk í þeim seinni og lagði upp sigurmark Garðbæinga.

Stjarnan vann þarna sinn fyrsta sigur í Bestu deildinni á tímabilinu en Keflavík hefur tapað báðum leikjum sínum.

Keflvíkingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, með vindinn í bakið, en Stjörnukonur áttu þó sín upphlaup.

Á 36. mínútu fékk Keflavík vítaspyrnu þegar Sharts handlék boltann innan vítateigs. Aníta Lind Daníelsdóttir tók vítið og skoraði.

Undir lok fyrri hálfleiks skoraði Susanna Friedrichs svo skrautlegt mark og kom heimakonum tveimur mörkum yfir. Melanie Rendeiro tók stutt horn og renndi boltanum á Friedrichs sem gaf fyrir og boltinn endaði í netinu.

Staðan var 2-0 í hálfleik, Keflvíkingum í vil, en í seinni hálfleik snerist dæmið við.

Á 50. mínútu minnkaði Sharts muninn þegar hún fylgdi eftir skoti Huldu Hrundar Arnarsdóttur sem Vera Varis varði. Aðeins þremur mínútum síðar jafnaði Sharts metin með skalla eftir hornspyrnu. 

Hún var svo enn og aftur á ferðinni þremur mínútum fyrir leikslok þegar hún átti langt innkast á kollinn á Caitlin Cosme sem skallaði boltann í netið, framhjá Varis í marki Keflavíkur.

Lokatölur 2-3 í hörkuleik þar sem Sharts kom sannarlega mikið við sögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×