„Maður er alltaf glaður þegar maður tekur þrjú stig heim og ekki síst eftir svona góðan liðssigur þar sem við vinnum 0-4,“ byrjaði Sandra María að segja.
Sandra vildi meina að varnarleikurinn hafi verið lykilinn að sigrinum.
„Mér fannst við spila mjög góðan varnarleik og nýttum okkar styrkleika í skyndisóknum og fundum svæðin sem við vorum að tala um fyrir leik og vildum leita í þau. Þannig við náðum að refsa þeim vel,“ hélt Sandra María áfram að segja.
Sandra María er nú komin með fimm mörk í fyrstu tveimur umferðunum en hún er búin að setja sér markmið varðandi markaskorun fyrir sumarið.
„Er það ekki bara þetta týbíska, gera betur en í fyrra og síðan væri kannski gaman að vera með annað markmið sem væri að skora einu sinni gegn öllum liðunum,“ endaði Sandra María að segja.