Líkurnar á því að liðið haldi sér uppi í efstu deild fara lækkandi, þeir eru þremur stigum frá öruggu sæti og eiga erfiða andstæðinga framundan í lokaleikjunum.
Arnór var leikmaður Bergischer frá 2012, hann lagði svo skóna á hilluna í fyrra og tók við starfi aðstoðarþjálfara. Aðalþjálfara liðsins var svo sagt upp á dögunum og Arnór tók við starfinu.
Þá hafði Bergischer ekki unnið leik síðan um miðjan desember og alls tapað þrettán leikjum í röð í deild og bikar. Liðið vann mikilvægan sigur í fallbaráttuslag við Balingen í fyrsta leik Arnórs við stjórnvölinn og lagði svo Erlangen í næsta leik.
Í dag heimsótti liðið HSV og byrjaði af miklum krafti. Bergischer leiddi með þremur mörkum, 15-18, þegar flautað var til hálfleiks. En heimamenn fundu taktinn seinni hálfleik, jöfnuðu fljótlega og tóku svo fram úr gestunum.
Leikurinn var spennandi allt til enda en HSV hafði betur að lokum, 32-30.
Bergischer situr áfram í 17. sæti, næstneðsta sæti deildarinnar og þremur stigum frá öruggu sæti þegar þrír leikir eru eftir af deildinni.
Bergischer tekur næst á móti Lemgo og á svo eftir að mæta Fusche Berlin og Flensburg, sem sitja í 2. og 3. sæti deildarinnar.