En þó er ákveðið millibilsástand uppi.
Vinur minn sem rekur verkfræðifyrirtæki sagði mér um daginn að honum litist ekkert á þessa sjálfbærniumræðu.
Eina sem honum finnst þetta þýða fyrir hans fyrirtæki er að þau þurfa að svara endalausum spurningum um umhverfismál og mannréttindi og fylla út mismunandi eyðublöð frá stórum fyrirtækjum þegar þau bjóða í verkefni.
Þetta skapar bara aukna skriffinnsku fyrir okkur segir hann,“
nefnir Ketill sem dæmi um hvernig sjálbærniumræðan blasir við smærri fyrirtækjum.
„Að mínu mati segir þessi upplifun vinar míns tvennt um sjálfbærni og lítil fyrirtæki. Í fyrsta lagi eru þetta staðfesting á því að sjálfbærni er nú þegar farin að hafa raunveruleg áhrif á lítil og stór fyrirtæki, og áhrif sjálfbærni á ekki eftir að minnka held ég,“ segir Ketill og bætir við:
,,Dæmið frá verkfræðifyrirtæki vinar míns sýnir líka að sjálfbærnistarf og kröfur til lítilla fyrirtækja er enn þá óþroskað og stór fyrirtæki hafa mismunandi leiðir til að tryggja að fyrirtæki sem þau eiga viðskipti við, sem oft eru litlir undirverktakar eða sérfræðifyrirtæki, hafi jákvæði áhrif á náttúruna og fólk.“
Mismunandi kröfur
Ketill segir millibilsástandið í atvinnulífinu lýsa sér þannig að kröfurnar eru komnar fram um að fyrirtæki verði að sinna sjálfbærni, en enn ríki óvissa og ósamræmi í því hvernig lítil fyrirtæki eigi að koma upplýsingum um sjálfbærnistarf sitt á framfæri.
„Nýjar sjálfbærni reglur ESB sem taka gildi á næstunni fókusa fyrst og fremst á að stórfyrirtæki sinni og greini frá í ársskýrslum sínum hvernig þau sinna sjálfbærni. Kröfur ESB til lítilla fyrirtækja um upplýsingagjöf er miklu minni, og svo gera stóru fyrirtækin kröfu til lítilla fyrirtækja,“ segir Ketill og bætir við:
Þær kröfur eru ekki staðlaðar og því gera mismunandi stórfyrirtæki gert mismunandi kröfur um upplýsingagjöf til lítilla fyrirtækja, sem skapar meiri skriffinnsku fyrir þau litlu.“
Þetta segir Ketill ekki góða stöðu fyrir lítil fyrirtæki að vera í.
„Þetta er í raun alvarlegt mál því fyrir vikið eru litlu fyrirtækin að upplifa sjálfbærni sem auka skriffinnsku, en ekki eitthvað sem skapar þeim virði.“

Góð ráð fyrir litlu fyrirtækin
Ketill segir þekkingu á sjálfbærnireglum ESB geta hjálpað litlum fyrirtækjum.
„Þó svo lítil fyrirtæki þurfi sjálf ekki að gefa út árlegar skýrslur um sjálfbærni, þá getur þekking þeirra á kröfunum sem gerðar eru til stærri fyrirtækja, auðveldað litlu fyrirtækjum að hafa tilbúnar staðlaðar upplýsingar um eigin sjálfbærnistarf.“
Þannig geti Evrópureglugerðin um sjálfbærni á endanum einfaldað sjálfbærnistarfið.
„Vinur minn sem á verkfræðifyrirtækið gæti til dæmis bent á staðlaðar upplýsingar á vefsíðunni sinni í stað þess að fylla út mismunandi eyðublöð frá hinum og þessum stórfyrirtækjum.“
Ketill segir líka mikilvægt að lítil fyrirtæki sýni frumkvæði.
„Til dæmis með því að vera með upplýsingar aðgengilegar um það hvernig þau tryggja velferð starfsfólks eða lágmarka kolefnisstarf sitt.“
Þá eru lítil fyrirtæki ekki undanþegin þeirri vinnu sem atvinnulífið um heim allan þarf að fara í gegnum:
Að endurskoða alla starfsemina frá a-ö.
„Lítil fyrirtæki geta byrjað á að endurskilgreina stefnu sína og framtíðarsýn með því að fá starfsfólk með í að finna út fyrir hverja þau eru að starfa og hvernig starfsemi þeirra styður nú þegar við sjálfbærni í heiminum.“
Í mörgum tilfellum getur smæðin hjálpað.
Oft er slík stefnumótun auðveldari fyrir lítil fyrirtæki en stór.
Það er auðvitað alltaf fjárfesting að fá fólk saman á vinnufund en það má líta á sjálfbærnistarf sem teymisþjálfun sem tryggir sterkari bönd við starfsfólkið því líklegt er að allt starfsfólk hafi skoðun á því hvernig starf þeirra geti mögulega bætt heiminn fyrir fólk.“
Ketill segir þessa vinnu vera fljóta að skila sér.
„Þegar lítil fyrirtæki skoða hvaða hlutverk þau hafa í virðiskeðjunni í sínum geira geta þau komið auga á sjálfbærnilausnir sem þau geta boðið uppá. Oft geta lítil fyrirtæki tengt sjálfbærni við nýsköpun og þannig stuðal að meiri vexti.“
Þá segir hann lítil fyrirtæki sem setja sjálfbærni í forgang oft liprari og aðlögunarhæfari, sem gerir þeim kleift að bregðast hratt við breyttum kröfum og nýjum tækifærum.
„Með því að setja sjálfbærni inn í DNA stefnu sinnar geta lítil fyrirtæki þróað sjálfbærar vörur, þjónustu og viðskiptamódel sem hjálpar þeim að vaxa.“
Ketill segir mörg önnur tækifæri geta falist í því fyrir lítil fyrirtæki að innleiða sjálfbærni í starfsemina.
Að skapa sér samkeppnisforskot er eitt en eins getur margt í sjálfbærni leitt til kostnaðarsparnaðar og rekstrarhagkvæmni.
„Til dæmis lækka útgjöld í kjölfar orkusparandi ráðstafana eða aðgerða sem stuðla að því að draga úr sóun og hámarka nýtingu auðlinda. Þarna fara sjálfbærni og arðsemi vel saman til lengri tíma litið.“
Á endanum sé aukin sjálfbærni allra hagur. Spurningin sé bara hvernig halda skuli af stað.
„Bróðurpartur íslenskra fyrirtækja eru lítil eða meðalstór. Eigendur þeirra geta undirbúið sig með því að setja sjálfbærni á dagskrá og vinna það með starfsfólki sínu. Með því tileinka sér aðferðir sjálfbærni geta lítil fyrirtæki náð samkeppnisforskoti, sparað fé, ýtt undir nýsköpun, aukið orðspor sitt og haft jákvæð áhrif á samfélög sín. Sem áhrifavaldar lítilla hagkerfa og meistarar sjálfbærni geta lítil fyrirtæki knúið fram þýðingarmiklar breytingar og skapað bjartari framtíð fyrir fólk.“