Jóhannes Karl Sigursteinsson tók við Stjörnuliðinu í lok júní, nokkuð óvænt af Kristjáni Guðmundssyni, og endar með liðið í 7. sæti Bestu deildarinnar. Þar hefur liðið siglt lygnan sjó undanfarið en spilað við lið sem börðust fyrir lífi sínu.
Í dag mætti Stjarnan Keflavík suður með sjó og komust Keflvíkingar í 3-0 með þrennu Melanie Rendeiro á fyrsta hálftímanum. Í stöðunni 3-1 fór boltinn út af vellinum og í innkast.
Jóhannes Karl, eða Kalli eins og hann er kallaður, ætlaði að bregðast skjótt við og koma boltanum í leik, enda liðið hans undir. Það fór þó ekki betur en svo að hann hrundi um vatnsbrúsa sem lágu á grasinu, eins og sjá má hér að neðan.
Kalli bar sig þó vel eftir fallið en grínaðist með það að þetta hlyti að „skrifast alfarið á Huldu“, og átti þá líklega við Huldu Björk Brynjarsdóttur liðsstjóra Stjörnunnar.
En skömmu eftir fallið skoruðu Stjörnukonur tvö mörk og leikurinn fór á endanum 4-4, sem þýddi að Keflavík var endanlega fallin úr deildinni.
Fylkiskonur féllu einnig í dag, eftir 3-0 tap gegn Tindastóli á Sauðárkróki.