Húbba Búbba samanstendur af þeim Eyþóri og Kristali Mána Ingasyni, U21-landsliðsmanni og leikmanni Sönderjyske í Danmörku. Þeir vöktu nokkra athygli, ekki síst á TikTok, eftir útgáfu síns fyrsta lags í byrjun júlí, sem þeir gerðu með þriðja fótboltamanninum, Loga Tómassyni (Luigi).
Víkingar auglýstu á samfélagsmiðlum að Húbba Búbba yrði hluti af veglegri upphitun þeirra fyrir bikarúrslitaleikinn við KA á laugardaginn en urðu að breyta auglýsingunni.

Kristall, sem er fyrrverandi leikmaður Víkings, mun vera í Danmörku og Hörður Ágústsson, markaðs- og viðburðastjóri Víkings, segir það hafa komið í ljós að tímasetningin hentaði Eyþóri ekki. Sjálfur segir Eyþór:
„Ég er fyrst og fremst KR-ingur, svo það eina sem ég spila í Víkinni er fótbolti. Ég er ekki að fara að taka lagið þarna. Það er bara svoleiðis.“
Kveðst ekki hafa talið við hæfi að spila í Víkinni
Hann hlýtur þó að hafa sagt já fyrst, úr því að auglýsingin fór í loftið?
„Nei. Það var ekki búið að staðfesta neitt. Það var búið að hafa samband við mig varðandi að taka lagið þarna en á endanum taldi ég það ekki við hæfi.“
Var það þá ekki þannig að það félli í grýttan jarðveg hjá vinnuveitendum hans, eða þjálfaranum Óskari Hrafni Þorvaldssyni, að hann tæki að sér að skemmta Víkingum daginn fyrir þýðingarmikinn fallslag við Vestra? Að þess vegna hefði hann þurft að hætta við?
„Ég taldi þetta bara ekki við hæfi. Ég var ekkert búinn að ræða um þetta við Óskar.“

„Kannski nýmóðins fyrir suma að sjá knattspyrnumann gera þetta“
Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolta.net, kom inn á það í hlaðvarpsþættinum Innkastinu í vikunni að „slúðursögur“ væru um það að menn í Vesturbæ væru óánægðir með Eyþór – að hann skilaði litlu á fótboltavellinum á meðan að hann væri úti um allt á samfélagsmiðlum.
Eyþór, sem kom til KR í apríl frá Breiðabliki og hefur spilað 18 deildarleiki í sumar, þar af þó aðeins þrjá í byrjunarliði, gefur lítið fyrir það:
„Ég þarf hafa í mig og á líkt og aðrir. Sumir vinna níu til fimm meðfram boltanum en ég kýs að stökkva á svið og taka nokkur lög. Það eru ekki allir steyptir í sama form og það er kannski nýmóðins fyrir suma að sjá knattspyrnumann gera þetta en við munum kannski sjá fleiri dæmi með núverandi og komandi kynslóðum. Þegar allt kemur til alls er fótboltinn og félagið númer 1, 2 og 3. Vissulega er þetta ákveðið púsluspil á köflum en knattspyrnan gengur ávallt fyrir,“ segir Eyþór.