Íslenski boltinn

Fót­­boltinn þurfi að njóta vafans hjá Val: „Er mjólkur­kýr fé­lagsins“

Aron Guðmundsson skrifar
Tími Barkar Edvardssonar í embætti formanns knattspyrnudeildar Vals er að líða undir lok. Tuttugu og eins árs farsælu samstarfi að ljúka.
Tími Barkar Edvardssonar í embætti formanns knattspyrnudeildar Vals er að líða undir lok. Tuttugu og eins árs farsælu samstarfi að ljúka. Vísir

Eftir tuttugu og eins árs feril í em­bætti formanns knatt­spyrnu­deildar Vals hefur Börkur Ed­vards­son á­kveðið að láta staðar numið og mun hann ekki bjóða sig fram til formanns sé stjórnar­setu á komandi haust­fundi fé­lagsins. Börkur vill að byggt verði meira á fót­boltanum hjá Val í fram­tíðinni. Honum leyft að njóta vafans. Fót­boltinn sé mjólkur­kýr félagsins.

Komið að tíma­mótum hjá bæði Berki og knatt­spyrnu­deild Vals. Mikið vatn runnið til sjávar frá því árið 2003, fjór­tán stórir titlar unnist og um­gjörð deildarinnar tekið stakka­skiptum. Það hafði blundað í Berki í tæp fimm ár að stíga til hliðar frá for­manns­em­bættinu sem er sjálf­boða­liða­starf, það reyndist hins vegar erfitt.

„Í ein­hverjum til­vikum hefur mér nánast verið bannað að hætta. Mér hefur runnið blóðið til skyldunnar og ekki viljað skilja eftir mig eitt­hvað sem er ekki nógu gott. Mér finnst rétti tíma­punkturinn núna til þess að láta staðar numið. Reksturinn er í góðum málum. Þetta er orðið mjög um­fangs­mikið starf. Nánast ó­gjörningur að sinna þessu í sjálf­boða­liða­starfi. Eftir tuttugu og eitt ár í þessu em­bætti geng ég mjög stoltur frá borði. Beinn í baki. Er með glæsta sögu, ég og mínir fé­lagar sem hafa staðið með mér vaktina allan þennan tíma. Bæði í titlum talið og ekki síður í upp­byggingunni. Ég hef fengið að kynnast alveg ó­trú­lega flottu og góðu fólki, bæði í Val en einnig fyrir utan Val. Vini fyrir lífs­tíð. Er á­nægður þegar að ég lít um öxl núna. Kveð mjög sáttur.“

Börkur skilur við rekstur knatt­spyrnu­deildarinnar að eigin sögn í góðum málum þrátt fyrir að smá­vægi­legt tap gæti orðið á rekstri knatt­spyrnu­deildar Vals í næsta upp­gjöri. Deildin á hins vegar inni átta­tíu til hundrað milljónir hjá aðal­stjórn fé­lagsins í upp­söfnuðum hagnaði. Eigið fé deildarinnar er svo um 111 milljónir.

Það er hins vegar mat Barkar eftir allan þennan tíma að það sé gífur­lega erfitt að reka fé­lag eins og Val. Fé­lag með sex stór lið í bolta­greinunum stóru. Hand­bolta, körfu­bolta og fót­bolta sem öll vilja titla.

„Þar af leiðandi þarftu bestu leik­mennina, bestu þjálfarana og bestu um­gjörðina. Þetta er rosa­lega kostnaðar­samt. Menn þurfa kannski í Val að fara stilla miðið upp á nýtt og að­laga sig að því að þetta er nánast ó­gjörningur. Að leggja svona mikið í þessa sex meistara­flokka. Því að fót­boltinn er mjólkur­kýrin í stóru myndinni. Því það eru gríðar­legir peningar sem fylgja því Evrópu­sæti í fót­bolta karla og kvenna, sem og að vinna titla þeim megin. Því miður er það ekki þannig í körfu­bolta og hand­bolta. Við þurfum svo­lítið að gæta að fót­boltanum í Val. Ýta meira á og byggja meira undir hans. Leyfa honum að njóta vafans. Því þar eru stóru peningarnir og ef þeir nást þá munu þeir nýtast fé­laginu öllu. Eins og árangur fót­boltans hefur gert.“

Viðtalið við Börk í heild sinni má sjá hér fyrir neðan. Einnig má hlusta á viðtalið í hlaðvarpsformi en neðar.

Klippa: Börkur stígur stoltur frá borði hjá Val



Fleiri fréttir

Sjá meira


×