Fyrri hluta tímabilsins var Sigurður á láni hjá Leikni. Hann spilaði tíu leiki fyrir Breiðhyltinga í Lengjudeildinni en var búinn að missa sæti sitt í byrjunarliðinu áður en hann sneri aftur í Garðabæinn.
Eftir heimkomuna lék Sigurður tíu leiki í miðri vörn Stjörnunnar, oftast við hlið Guðmundar Kristjánssonar. Garðbæingar unnu sex þeirra, gerðu tvö jafntefli, töpuðu aðeins tveimur og héldu fjórum sinnum hreinu.
Baldur þekkir til Sigurðar og mærði hann í Besta sætinu, hlaðvarpi íþróttadeildar Sýnar, þegar farið var yfir nýafstaðið tímabil í Bestu deild karla.
„Ég þekki þennan strák. Ég er ofboðslega ánægður að sjá Sigga koma þarna inn. Hann er þarna því hann er með alvöru hugarfar og hefur unnið fyrir sínu,“ sagði Baldur sem lék með Stjörnunni á sínum tíma.
„Ég man eftir æfingu, hann var að leika sér á velli við hliðina á, og okkur vantaði leikmann í ellefu á ellefu í uppspili, daginn fyrir leik æfingu, þegar hann var á eldra ári í 4. flokki. Hann kom inn og spilaði eins og hann væri 25 ára; talaði og stýrði inni á meistaraflokksæfingu í fyrsta skipti. Hann hefur þetta og þess vegna er ég ofboðslega glaður að sjá tækifærið sem hann fékk og hvernig hann nýtti það.“
Baldur segir að margir yngri leikmenn geti tekið Sigurð sér til fyrirmyndar.
„Þetta er leið sem margir geta horft í. Þetta snerist bara um hans elju og hugarfar. Það verður gaman að sjá hvort hann og Gummi myndi ekki bara býsna sterkt hafsentapar á næsta ári og hvernig þetta þróast með hann,“ sagði Baldur um hinn nítján ára Sigurð.
Hlusta má á Besta sætið í spilaranum hér fyrir ofan. Einnig má hlusta á þáttinn á Spotify og öðrum hlaðvarpsveitum.