Víkingur vann sannfærandi 2-0 sigur þegar liðið fékk bosníska liðið Borac Banja Luka í heimsókn á Kópavgsvöllinn í þriðju umferð Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta karla í dag.
Það var Niko Hansen sem náði forystunni fyrir Víking eftir rúmlega stundarfjórðungs leik en Karl Friðleifur Gunnarsson átti þá flotta fyrirgjöf og danski framherjinn kláraði færið af stakri prýði.

Víkingur var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og heimamenn hömruðu járnið á meðan það var heitt. Skömmu síðar nýttu Víkingar sér líkamlega yfirburði sína í vítateig bosníska liðsins.
Eftir langt innkast hjá Davíð Erni Atlasyni flikkaði Niko boltanum sem hrökk fyrir fætur Karls Friðleifs. Vinstri bakvörðurinn skoraði með góðu skoti sem söng í samskeytunum.

Víkingar voru nær því að bæta við þriðja markinu en gestirnir frá Bosníu að hleypa spennu í lei
Þessi sigur fleytir Víkingi í sex stig og upp í tíunda sæti Sambandseildarinnar en efstu átta lið deildarinnar fara beint í 16 liða úrslit keppninnar á meðan liðin sem hafna í 9. – 24. sæti fara í umspili um sæti í útsláttarkeppninni.
Næsti leikur Víkings í Sambandsdeildinni er gegn armenska liðinu Noah ytra í fjórðu umferð deildarinnar 28. nóvember næstkomandi.
Atvik leiksins
Það var unun að horfa á samvinnu Viktors Örlygs og Gísla Gottskálks inni á miðsvæðinu í þessum leik og Danijel Dejan Djuric lék listir sína hvað eftir annað. Það var hvað eftir annað sem Viktor og Gísli fundu Danijel á kantinum sem skapaði eitthvað með boltatækni sinni.



Stjörnur og skúrkar
Danijel Dejan Djuric lék á als oddi i þessum leik og skapaði trekk í trekk góðar stöður og færi bæði fyrir sjálfan sig og samherja sína.
Karl Friðleifur var flottur í vinstri bakverðinum en hann lagði upp fyrra mark Víkings og skoraði það seinna. Viktor Örlygur Andrason, Gísli Gottskálk Þórðarson og Aron Elís Þrándarson mynduðu frábært þríeyki inni á miðsvæðinu.
Niko Hansen skilaði svo ansi góðu dagsverki í fremstu víglínu hjá Víkingsliðinu sem átti ef því er að skipta allt flotta frammistöðu að þessu sinni.

Dómarar leiksins
Tékkinn geðþekki Jan Petrik dæmdi þennan leik ágætlega og hann og hans aðstoðarmenn fá sjö fyrir sinn flautukonsert.
Stemming og umgjörð
Það var bara fínasta stemming í hráslaganum í Kópavogi í dag. Víkingar mættu vel og studdu sína menn með ráðum og dáðum. Stuðningsmenn Borac Banja Luka mættu til leiks með látum en þeir sprengdu flugeld fyrir leikinn.
Á meðan á leiknum stóð dvínaði stuðningur þeirra við liðið þó með hverri mínútunni sem leið og staðan varð svartari og svartari fyrir gestina.
