Hollendingar, sem urðu í 6. sæti á síðasta EM og í 5. sæti á HM fyrir ári síðan, eru fyrstu mótherjar Íslands á EM en liðin mætast næsta föstudag í Innsbruck í Austurríki.
Þetta heimsmeistaralið frá árinu 2019 átti engin svör við leik Noregs í seinni hálfleik í dag, eftir góða byrjun í leiknum.
Holland var raunar tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14-12, en í seinni hálfleiknum skoraði liðið aðeins sjö mörk gegn 21 marki frá stelpunum hans Þóris sem unnu því stórsigur, 33-21.
Noregur gerði 27-27 jafntefli við heimakonur í Danmörku í fyrsta leik sínum á þessu æfingamóti, sem kallað er Gulldeildin, og lýkur mótinu með leik við Rúmeníu á morgun. Fyrsti leikur Noregs á EM er svo við Slóveníu á fimmtudaginn, en riðill Noregs er spilaður á sama stað og riðill Íslands, í Innsbruck.
Holland mætir Danmörku á morgun, þegar Ísland spilar seinni leik sinn við Sviss, áður en leikur Íslands og Hollands fer svo fram á föstudaginn. Í riðli þeirra á EM eru einnig Þýskaland og Úkraína.