Holland virtist lengi vel ætla að landa sigri í Varazdin í dag og koma sér í 2. sæti riðilsins, stigi upp fyrir Ungverja. Austurríkismenn náðu hins vegar að jafna metin og bæði lið fengu tækifæri til að tryggja sér sigur á lokakaflanum. Síðasta sóknin var Austurríkis en hún rann út í sandinn.
Holland endar því með fimm stig og getur ekki lengur komist upp fyrir Ungverjaland sem er einnig með fimm stig en vann innbyrðis leik liðanna. Austurríki endar með fjögur stig.
Eina leiðin til að Ungverjar endi ekki í 2. sæti er að þeir vinni ekki Katar, og að Norður-Makedónía vinni Frakkland í kvöld.
Sviss skellti Ítalíu
Svisslendingar svo gott sem tryggðu sér 3. sætið í milliriðli 1, með öruggum 33-25 sigri gegn Ítölum sem hafa gert flotta hluti á mótinu.
Sviss endar með fimm stig og Ítalía fjögur, en það var ljóst fyrir leik að hvorugt liðanna gæti náð Þýskalandi og hvað þá Danmörku sem eru örugg um efstu tvö sætin, og þar með sæti í 8-liða úrslitum.