Atvinnulíf

Prakkara­strik loks opin­berað: „Það leið­réttist hér með!“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það er vel við hæfi að mynda Jón Trausta Ólafsson forstjóri Öskju í snjó á köldum vetrardegi. Því í kaffispjalli dagsins viðurkennir hann loks að hafa rústað 200 fermetra skautasvell á Skaganum þegar hann var sex ára. Jón Trausti átti sér vitorðsmann.
Það er vel við hæfi að mynda Jón Trausta Ólafsson forstjóri Öskju í snjó á köldum vetrardegi. Því í kaffispjalli dagsins viðurkennir hann loks að hafa rústað 200 fermetra skautasvell á Skaganum þegar hann var sex ára. Jón Trausti átti sér vitorðsmann. Vísir/Vilhelm

Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Öskju, opinberar sök í smá prakkarastriki á Skaganum þegar hann var sex ára en almennt telur hann sig ekki hafa verið mikinn prakkara í æsku. Uppáhaldsmorgnarnir eru þegar hann byrjar daginn í golf hermi með félögunum.

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Ég er nánast hættur að nota vekjaraklukku og er yfirleitt vaknaður alla morgna klukkan 07.10. Oft finnst mér gott að sofa í nokkrar mínutur eftir að ég rumska en ég er alla vega alltaf kominn á lappir fyrir hálf átta.

Konan mín vaknar yfirleitt á sama tíma og við erum nánast alltaf samferða á fætur. 

Á veturna á föstudögum er hins vegar ræs fyrr eða upp úr klukkan sex þar sem ég spila golf í hermi með golf-félögum mínum og er þá mættur í vinnu um klukkan níu - eftir 18 holur. Þetta eru uppáhaldsmorgnar mínir.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Við erum svo heppin að eiga hund og á leiðinni út með hann gríp ég mér kaffibolla og fer beint með hann út til að pissa. Ég verð því miður að viðurkenna að ég kíki á tölvupóstinn minn til að skoða hvort eitthvert spennandi verkefni bíði. Þetta er eitthvað sem ég þarf að fara venja mig af.“

Á skalanum 0-10; hversu mikill prakkari varstu þegar þú varst lítill? 

„Ég er ekki viss um að ég hafi verið mesti prakkarinn þegar ég var lítill. En alveg örugglega tók ég þátt í einhverju skemmtilegu með vinum mínum. 

Ég man þó sérstaklega eftir því upp á Skaga eitt árið þegar ég og vinur minn Pálmi brutum heilt skautasvell í garði ömmu hans á Vesturgötunni. 

Við erum að tala um alla vega 200 fermetra tjörn sem átti að nota sem skautasvell og rétt um það leyti sem allt var að frysta þá höfðum við 6 ára gamlir alveg rústað þessu öllu saman. 

En könnuðumst að sjálfsögðu lítið við þegar þegar við vorum aðspurðir – og það leiðréttist hér með!“

Jón Trausti segir skipulagða samstarfsfélaga gera vinnuna sína léttari. Yfir vikuna tekur hann þátt í nokkrum vikulegum fundum þar sem árangur, markmið og nýjar leiðir eru rædd. Og hvernig hægt er að gera jafnvel enn betur en áður. Vísir/Vilhelm

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Það eru ótrúlega spennandi tímar hjá mér núna í vinnunni. Við höfum verið að fjölga verkefnum okkar því er ég helst núna að vinna í þróun þeirra með samstarfsfólki og eigendum. 

Fyrirtækið sem á Öskju heitir Vekra og meðal systurfélaga okkar er Dekkjahöllin sem var að opna nýtt og flott hjólbarðaverkstæði í Garðabæ. Ég vinn einnig með Landfara sem er nýtt nafn umboðinu okkar sem sinnir vörubílum og rútum frá Mercedes-Benz og þar erum við til dæmis að opna nýtt verkstæði í Hafnarfirði í sumar. 

Svo er það Bílaumboðið Una sem var að hefja sölu á kínverskum bílum sem heita Xpeng og svona mætti áfram telja. Það er alltaf eitthvað nýtt að gerast á hverjum degi.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

Ég fylgist vel með tölum og vil vera í góðu sambandi við samstarfsfólk mitt. Mér finnst gott að hafa yfirsýn með því við dreifum ábyrgð og eftirfylgni. 

Ég tek þátt í nokkrum vikulegum fundum þar sem við ræðum árangur, markmið, nýjar leiðir og hvernig við gerum enn betur. 

Ég á sem betur fer frábæra vinnufélaga sem eru afar skipulagðir og þá verður þetta allt léttara.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Best finnst mér að vera sofnaður um eða upp úr klukkan ellefu. Eftir ég fékk mér Garmin úr, sem sérfræðingar segja sumir að sé marklaust, þá alla vega fæ ég ýmsar vísbendingar um svefn og fleira. Mér finnst gott að eltast við sjálfan mig og set mér því markmið um svefn líka.“


Tengdar fréttir

Forstjórinn sem saumar þjóðbúninginn öll mánudagskvöld

Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Íslandspósts, byrjar daginn á því að fá sér kaffi með sínum besta manni. Öll mánudagskvöld situr hún með systrum sínum og saumar íslenska þjóðbúninginn undir handleiðslu móður sinnar og frænku.

„Ætla ekki að ljúga því að ég sé einhver ofurhress morguntýpa“

Bjarni Gaukur Sigurðsson framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Blikk er greinilega ólíkindartól sem fer sínar eigin leiðir. Því Bjarni segir að ef hann væri ofurhetja í teiknimynd, væri hann án efa Svarta kvikindið. Bjarni segir það ákveðna áskorun að fylgja ekki eftir óskrifuðum reglum samfélagsins.

„Hef einstaklega gaman af þessari stanslausu niðurlægingu“

Hrefna Sigfinnsdóttir, forstjóri Creditinfo, hefur oft sett sér það markmið um áramótin að verða sjúklega góð í golfi. Eftir fjögur ár af skemmtilegri en stanslausri niðurlægingu ákvað hún að setja sér nýtt markmið fyrir þetta ár: Að hafa gaman að þessu. Hrefna fer í ræktina með fimmtíu ára gömlum vinskap þrisvar í viku.

Grýlan sem segir vekjaranum að grjóthalda kjafti

Sigga Dögg kynfræðingur og rithöfundur, byrjar daginn oftast á því að segja vekjaranum að grjóthalda kjafti. Enda elskar hún sinn níu tíma svefn þar sem hún ferðast um heima og geima. Sigga Dögg samsvarar sig helst við Grýlu í jólasveinafjölskyldunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×