Karen Ösp og Petra eru báðar fæddar árið 1992 og hafa verið vinkonur frá því þær muna eftir sér.
„Í æsku blönduðum við saman nornaseiði og drullumalli úti í garði. Við stigum svo okkar fyrstu skref í listinni saman þegar við fórum alltaf saman í tíma hjá Myndlistarskóla Reykjavíkur eftir skóla og höfum báðar haft mikinn áhuga á list frá ungum aldri.“
Karen Ösp var svo fyrri til að flytja til Bandaríkjanna og endaði á að leggja stund á myndlist í háskólanámi hjá listaháskólanum MICA.
„Stuttu seinna kom Petra líka út og lærði myndlist hjá Hunter í New York. Þá byrjaði ég að heimsækja hana til New York og við vorum duglegar að skoða list saman og heimsækja söfn og gallerí,“ segir Karen Ösp og bætir við að hún hafi sömuleiðis heimsótt vinkonu sína þegar Petra fór í meistaranám í hinn virta háskóla Yale.

Útgangspunktur sýningarinnar er að sögn vinkvennanna sá að þær leituðu að jarðtengingu. Þær höfðu búið í sitt hvoru landinu í nokkur ár þangað til leið þeirra lá aftur til Reykjavíkur á æskuslóðirnar.
„Við höfum alla tíð verið mjög góðar vinkonur og tengst mikið í gegnum listina en við uppgötvuðum listina svolítið saman. Vinkona okkar spurði okkur einhvern tíma hvort við værum ekki að huga að því að vinna eitthvað saman og þó við í rauninni gerum frekar ólíka list þá ákváðum við að finna miðpunkt og slá saman í sýningu.
Við fórum báðar út fyrir þægindarammann og ákváðum að gera list út frá fyrir fram ákveðinni litapallettu sem samanstendur af jarðbundnum listum. Ég hef bara málað blá verk síðan 2019 þannig þetta var öðruvísi og skemmtilegt. Við erum ánægðar að hafa fengið að vinna saman og það er heiður fyrir mig að fá að sýna með Petru minni æskuvinkonu og listakonu,“ segir Karen brosandi.
Petra vinnur með silfursmíði, útsaum og annað hefðbundið handverk. Hún finnur innblástur úr gömlum bókum, blöðum, fornminjum og minningum.
„Það er þó mikilvægt að verkin komi ekki fram sem draugar eða uppvakningar heldur spretti upp, fersk og ung, úr þessum morkna jarðvegi,“ segir í fréttatilkynningu.
Þar kemur sömuleiðis fram að Karen hefur komið upp vinnustofu á æskuheimili sínu þar sem hún er umkringd gömlum hlutum. Hún nýtur þess að blása í þá nýju lífi í gegnum málverk sem einblína á smáatriði eins og mynstur sem endurvekja æskuminningar.
Karen málar olíumálverk en hefur einnig verið að fikra sig áfram með því að hanna þrívíddarmódel og gera út frá þeim skúlptúra sem eiga í samtali við málverkin.
Petra og Karen vinna verkin á sýningunni í sitt hvoru lagi en kveikjan að verkunum er oft sú sama og vináttan er þeim hugleikin.
„Þær eru undir miklum áhrifum frá hvor annarri, enda mótaðar úr sama leirnum.“
Hér má sjá myndir frá opnuninni:

















