Handbolti

Franska stór­liðið stað­festir komu Dags

Aron Guðmundsson skrifar
Það verður spennandi að sjá Dag Gautason spreita sig með Montpellier
Það verður spennandi að sjá Dag Gautason spreita sig með Montpellier Mynd: ØIF Arendal

Vinstri hornamaðurinn Dagur Gautason hefur samið við franska stórliðið Montpellier til loka yfirstandandi tímabils. Þetta staðfesti franska félagið núna í morgun. 

Montpellier varð fyrir áfalli þegar að sænski landsliðsmaðurinn Lucas Pellas sleit hásin og verður hann frá út yfirstandandi tímabil og því var ákveðið að sækja Dag.

Dagur, sem er uppalinn hjá KA, hefur farið á kostum með Arendal í norsku úrvalsdeildinni og var valinn besti vinstri hornamaður deildarinnar á síðustu leiktíð. Hann hefur svo haldið áfram að standa sig vel í vetur og er langmarkahæstur í liðinu með 83 mörk í 17 leikjum, og í 9. sæti yfir markahæstu menn í allri deildinni.

Hann gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir Montpellier á laugardaginn næstkomandi þegar liðið mætir Aix í átta liða úrslitum franska bikarsins. 

Montpellier hefur fjórtán sinnum orðið franskur meistari, síðast árið 2012, þrettán sinnum bikarmeistari og tvívegis unnið Meistaradeild Evrópu, síðast árið 2018.

Liðið er sem stendur í 3.sæti frönsku deildarinnar þremur stigum á eftir toppliðum PSG og Nantes og í Evrópudeildinni er Montpellier langt komið með að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×