Handbolti

Valskonur juku for­skotið á toppnum í átta stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Rósa Magnúsdóttir kom að sex mörkum í kvöld, skoraði þrjú mörk og átti þrjár stoðsendingar.
Elín Rósa Magnúsdóttir kom að sex mörkum í kvöld, skoraði þrjú mörk og átti þrjár stoðsendingar. Vísir/Anton Brink

Valur fagnaði sínum fjórða sigri í röð í Olís deild kvenna í kvöld þegar liðið vann þriggja marka sigur á ÍR á Hlíðarenda.

Valur vann leikinn 22-19 eftir að hafa verið 13-8 yfir í hálfleik.

Valsliðið tapaði á móti Haukum í síðasta mánuði sem var fyrsta tap liðsins í meira en ár. Liðið hefur aftur á móti unnið alla fimm leiki sína heima á Íslandi síðan þar af fjóra þeirra í deildinni.

Haukar eru nú átta stigum á eftir Val en geta minnkað forskotið aftur í sex stig með því að vinna sinn leik seinna í kvöld.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst hjá Val með sjö mörk en Sigríður Hauksdóttir skoraði fjögur mörk. Elín Rósa Magnúsdóttir og Thea Imani Sturludóttir voru með þrjú mörk hvor.

Hafdís Renötudóttir varði 17 skot í marki Vals eða 47 prósent skota sem á hana komu.

Katrín Tinna Jensdóttir fór fyrir liði ÍR og skoraði fimm mörk. Maria Leifsdóttir og Sara Dögg Hjaltadóttir voru með þrjú mörk hvor en Sara gaf einnig fjórar stoðsendingar. Ingunn María Brynjarsdóttir varði vel í markinu eða fjórtán skot og eitt víti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×