Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fólk fer að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Flesta daga vakna ég í kringum hálf sjö. Samhliða Moodup er ég körfuboltadómari og það getur verið ansi erfitt að dæma krefjandi leik um kvöldið, koma heim um hálf ellefu og eiga þá eftir að næra mig, ná mér niður og svo loks sofna og ætla svo að vakna um hálf sjö. Þá daga sef ég yfirleitt lengur og geymi ræktina þangað til seinni partinn.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Yfirleitt fer ég fram úr, í föt og beint út í ræktina. En þá daga sem ég sef lengur tek ég mér yfirleitt aðeins lengri tíma. Fæ mér til dæmis shake í morgunmat og les fréttir.“
Heiðarleikaspurning: Hvað er hallærislegasta sjónvarpsefni sem þú hefur fylgst með?
Ætli það verði ekki vera Downton Abby! Hrikalega hallærislegir þættir sem eru mjög vinsælir hjá konum á sextugsaldri.
Ég var algjörlega sjúkur í þá og er til dæmis búinn að horfa á allar fimm seríurnar tvisvar sinnum. Myndina líka ....“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Skyggnir eignarhaldsfélag var að festa kaup á Moodup. Við vorum að færa alla starfsemi okkar niður í Borgartún í Origo húsið og erum að fóta okkur á nýjum slóðum. Í augnsýn eru hrikalega spennnadi vaxtartækifæri fyrir okkur og ég er helst að vinna í því þessa dagana.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Á sunnudögum finnst mér gott að setjast niður og skipuleggja alla komandi viku. Ég set þá upp gróft plan fyrir vikuna, preppa það sem ég get gert fyrirfram og er þá með upplegg klárt þegar ég mæti á mánudagsmorgni.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
Yfirleitt fer ég að sofa um ellefu, fyrir utan þau kvöld sem ég er að dæma.
Ég er samt á einhverju rebel tímabili núna og er að teygja virku kvöldin mín ansi langt.
Einhverjir unglingastælar í mér.“