Melsungen hefur komið mörgum á óvart í þýsku deildinni í vetur og var fyrir umferðina í kvöld á toppi deildarinnar í æsispennandi toppbaráttu.
Gegn Stuttgart í kvöld var Melsungen sterkari aðilinn frá upphafi eins og búist var við. Melsungen var 16-13 yfir eftir fyrri hálfleikinn en steig enn frekar á bensíngjöfina eftir hlé og jók forskotið.
Elvar Örn Jónsson var að spila frábærlega fyrir Melsungen í kvöld líkt og hann hefur gert allt tímabilið. Hann skoraði fimm mörk og gaf þar að auki fimm stoðsendingar, langflestar af öllum leikmönnum liðsins.
Lokatölurnar í leiknum urðu 35-29 fyrir Melsungen og toppsætið því áfram þeirra. Liðið er með 34 stig í efsta sætinu, Hannover-Burgdorf tveimur stigum á eftir í 2. sæti og Kiel síðan tveimur stigum þar á eftir í 3. sæti.
Arnar Freyr Arnarsson var ekki með Melsungen í kvöld vegna meiðsla sem hann varð fyrir á heimsmeistaramótinu í janúar.