Íslenski boltinn

Yngri bróðir Benoný Breka yfir­gefur líka KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Brimi Andrésson byrjaði undirbúningstímabilið með KR en hefur nú skipt yfir í Gróttu.
Björgvin Brimi Andrésson byrjaði undirbúningstímabilið með KR en hefur nú skipt yfir í Gróttu. @grottaknattspyrna

Björgvin Brimi Andrésson hefur ákveðið að hætta hjá KR og fara frekar aftur til uppeldisfélags síns Gróttu.

Grótta sagði frá því að Björgvin Brimi sé kominn heim á Seltjarnarnesið eftir fjögurra ára fjarveru.

Björgvin verður sautján ára gamall í sumar en hann lék með yngri flokkum Gróttu allt upp í fjórða flokk.

Grótta spilar í 2. deild eða C-deild íslenska fótboltans. Liðið féll nefnilega úr Lengjudeildinni síðasta haust.

Björgvin á að baki níu leiki með yngri landsliðum Íslands og skoraði meðal annars tvö mörk í þremur leikjum með sextán ára landsliðinu.

Hann kom síðasta haust við sögu í tveimur leikjum með Vesturbæingum í Bestu deildinni og spilaði einn leik með KR í Lengjubikarnum á dögunum. Kom inn á sem varamaður á 90. mínútu í 2-0 sigri á Keflavík.

„Björgvin er teknískur leikmaður sem leikur framarlega á vellinum, líkt og eldri bróðir hans Benoný sem eins og kunnugt er sló markamet efstu deildar á síðustu leiktíð með því að skora 21 mark með liði KR,” segir í frétt á miðlum Gróttu.

Benoný Breki yfirgaf KR eftir tímabilið og samdi við enska C-deildarliðið Stockport County. Benoný skoraði 30 mörk í 50 leikjum síðustu tvö sumur í Bestu deildinni.

„Það er ánægjulegt að sjá Björgvin Brima ganga aftur í raðir Gróttu og við hlökkum til að fylgjast með þessum unga og efnilega leikmanni spreyta sig í komandi verkefnum með liðinu. Það hefur verið talsverð endurnýjun í hópnum og Björgvin smellpassar þar inn enda ungur leikmaður á uppleið með sterkar rætur á Nesinu,” sagði Þorsteinn Ingason, formaður knattspyrnudeildar Gróttu, sem fagnar heimkomu Björgvins Brima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×