Haukar urðu í dag bikarmeistarar kvenna í handbolta eftir fimm marka sigur á Fram, 20-25, í úrslitaleik á Ásvöllum. Haukar hófu leikinn af miklum krafti og unnu sér upp forystu í fyrri hálfleik sem þær létu ekki af hendi í þeim seinni.
Haukar urðu þar með bikarmeistarar í fimmta sinn frá upphafi, fyrsta sinn síðan 2007, og hefndu fyrir tapið gegn Fram í úrslitaleiknum 2018.
Fram, sem er sigursælasta lið í sögu keppninnar með sextán titla, sat eftir með sárt ennið.
Furðulegur fyrri hálfleikur
Fyrri hálfleikurinn var furðulegur að mörgu leiti og mjög kaflaskiptur.
Haukar byrjuðu mun betur, virkuðu sem algjört yfirburðalið fyrstu mínúturnar og skoruðu fimm mörk án þess að fá eitt á sig.

Fram var lengi að hrista af sér stressið en sýndi síðan algjöra snilldartakta, eftir að hafa tekið leikhlé, og tókst fljótlega að jafna leikinn 5-5.

Þá átti Elín Klara frábært einstaklingsframtak og skoraði tvö mörk upp á eigin spýtur. Við það hrukku Haukar aftur í gang og tóku fimm marka forystu á ný, 10-5.

Staðan hélst síðan nánast óbreytt þangað til flautað var til hálfleiks, þá orðin 11-6.
Ekki skorað í skömmtum í seinni
Í seinni hálfleik var eðlilegri þróun á leiknum og liðin skoruðu ekki í sömu fimm marka skömmtum og í fyrri hálfleik.

Haukar héldu hins vegar áfram yfirburðum sínum og létu forystuna aldrei af hendi. Sama hvað Fram reyndi, og það var ýmislegt, tókst þeim aldrei að minnka muninn almennilega.

Haukakonur svöruðu öllu sem að þeim bar jafnóðum.

Sara Sif Helgadóttir hélt áfram að verja eins og vitleysingur og var verðskuldað valin verðmætasti leikmaður úrslitahelgarinnar.

Á hinum endanum gekk sóknarleikurinn smurt, Haukar fengu framlag frá öllum sem snertu gólfið og mörkin bárust úr ýmsum áttum þar til sigurinn skilaði sér í hús og bikarmeistaratitillinn fór á loft.



Fékk bæði rjómann og sykurinn

„Við spiluðum frábæran leik. Frábær sóknarleikur, varnarleikur, markvarsla. Bara allir þættir handboltans góðir hjá okkur. Ef þú ætlar að vinna Fram þarftu að spila vel og við gerðum það…
Mér finnst þetta bara eins og þegar maður fær sér pönnukökur, maður fékk bæði rjómann og sykurinn með, þá er ekki hægt að kvarta“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Hauka, fljótlega eftir leik.
Haukakonur alveg jafn líklegar fyrir leik
„Við erum að spila á móti frábæru liði og Haukarnir eru alveg jafn miklir kandídatar og við fyrir þennan leik. Þær voru bara frábærar, mér fannst þær grimmari á flest öllum sviðum og við vorum að ströggla alveg hrikalega í fyrri hálfleik í sókninni...
Auðvitað svekkjandi að við höfum ekki náð að sýna okkar besta leik en svona fór þetta og við óskum Haukafólki bara til hamingju“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir, þjálfari Fram, fljótlega eftir leik.
Fram fær annað tækifæri til að fagna
Stuðningsfólk Fram hafði ekki yfir neinu að gleðjast í fyrri leik dagsins, en fær annað tækifæri til að fagna því karlalið félagsins er einnig í úrslitum.
Leikur Fram og Stjörnunnar í bikarúrslitum karla hefst klukkan 16:30 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.