Fram tryggði sér sæti í úrslitaleik Powerade-bikars karla með sigri á Aftureldingu í framlengdum leik, 36-33, á miðvikudaginn.
Í úrslitaleiknum mætir Fram Stjörnunni sem sigraði ÍBV í hinum undanúrslitaleiknum, 34-29.
Þetta verður í fjórða sinn sem Fram og Stjarnan mætast í bikarúrslitum. Stjörnumenn höfðu betur 1987 og 2007 en Framarar unnu sinn eina bikarmeistaratitil í karlaflokki með sigri á Stjörnumönnum, 27-23, í Laugardalshöllinni 19. febrúar 2000.
Fyrirliði Fram var markvörðurinn Sebastian Alexandersson sem varði 21 skot í leiknum. Gunnar Berg Viktorsson skoraði ellefu mörk og jafnaði markamet í úrslitaleik bikarkeppninnar. Það hefur síðan verið slegið, síðast í fyrra þegar Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði sautján mörk í sigri Vals á ÍBV, 43-31.
Þjálfari Fram var Rússinn Anatoli Fedioukine. Í liði Framara var ungur Róbert Gunnarsson en hann skoraði þrjú mörk í bikarúrslitaleiknum.
Bikarúrslitaleikir Fram
- 1974: Valur 24-16 Fram
- 1975: FH 19-18 Fram
- 1987: Stjarnan 26-22 Fram
- 1998: Valur 25-24 Fram
- 2000: Fram 27-23 Stjarnan
- 2002: Haukar 30-20 Fram
- 2004: KA 31-23 Fram
- 2007: Stjarnan 27-17 Fram
- 2008: Valur 30-26 Fram
- 2012: Haukar 31-23 Fram
- 2018: ÍBV 35-27 Fram
- 2021: Valur 29-22 Fram
- 2025: Fram ??-?? Stjarnan
Fram á tvo lið í bikarúrslitum því kvennalið félagsins mætir Haukum í úrslitaleiknum.
Framkonum hefur gengið öllu betur en Framkörlum í bikarúrslitaleikjum en þær hafa sextán sinnum orðið bikarmeistarar, oftast allra liða. Haukar hafa fjórum sinnum unnið bikarinn, síðast 2007.
Bikarúrslitaleikur kvenna hefst klukkan 13:30 og bikarúrslitaleikur karla 16:00. Báðir leikirnir verða í beinni textalýsingu á Vísi.