Golf

Enn að jafna sig á frá­falli móður sinnar og ó­viss hvort hann keppir á Players

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tiger Woods hefur glímt við erfið bakmeiðsli síðustu árin og fór í sína sjöttu bakaðgerð í september í fyrra.
Tiger Woods hefur glímt við erfið bakmeiðsli síðustu árin og fór í sína sjöttu bakaðgerð í september í fyrra. afp/Michael Owens

Tiger Woods er óviss hvort hann keppir á Players meistaramótinu sem hefst í næstu viku. Hann er enn að jafna sig á fráfalli móður sinnar.

Móðir Tigers lést í síðasta mánuði og hann keppti ekki á Genesis Invitational. Hann spilaði hins vegar á móti í TGL deildinni sinni á mánudaginn en er samt ekki viss hvort hann keppir á Players.

„Þetta er í þriðja sinn sem ég snerti kylfurnar síðan mamma féll frá svo ég er ekki enn kominn af stað,“ sagði Tiger.

„Ég er ekki alveg klár í að æfa núna. Það er svo margt í gangi og ég er að reyna að gera aðra hluti. Þegar mér fer að líða aðeins betur og kemst af stað kíki ég á dagskrána.“

Kylfingar hafa frest til föstudags til að svara hvort þeir ætli að vera með á Players sem fer fram 13.-16. mars næstkomandi.

Tiger hefur ekki keppt á móti á PGA-mótaröðinni síðan hann keppti á Opna breska í júlí í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×