Gott er að gera okkur grein fyrir því hvað einkennir þessa vinnufélaga og verða í kjölfarið meðvitaðri um það hvernig við ættum að taka á málum.
Þið þekkið þessar týpur en þær eru helst þessar:
Boðberi slæmra tíðinda
Þetta er vinnufélaginn sem einfaldlega elskar að segja slæmar fréttir. Jafnvel þótt þær séu enn bara á kenningarstiginu. Að eitthvað muni ekki ganga upp, að eitthvað sé að ganga illa hjá einhverjum, að einhver mögulega hafi verið að rífast við einhvern, að yfirmaðurinn hafi verið óánægður með einhvern, að einhver muni mögulega missa starfið sitt og svo framvegis.
Mælt með: Svaraðu með rökum og láttu þar við sitja. Ekki fara í rökræður því fyrir þennan vinnufélaga snýst allt um að draga okkur hin inn í neikvæða umræðu.
Kjaftaskurinn / kjaftakerlingin
Þetta er vinnufélaginn sem elskar fyrst og fremst að slúðra. Óháð því hvort það sé nokkur fótur fyrir slúðrinu. Slúðrið getur snúist um allt; fólk í vinnunni, fólk í fréttum, viðskiptavini, fólk í fjölskyldunni…. hvern sem er. Slúðursögur sem hneyksla eru uppáhald.
Mælt með: Svaraðu með rökum og látt uþar við sitja. Ekki taka þátt í slúðri um annað fólk.
Dramadrottningin (eða kóngurinn)
Þetta er vinnufélaginn sem er svo mikil dramadrottning að það mætti halda að viðkomandi sé duglegasti starfsmaðurinn í vinnunni, þurfi að gera mest, sé með allt á herðum sér, lifi erfiðari lífi en aðrir, sé fórnarlamb aðstæðna (líka í vinnunni), andvarpar og dæsir, ranghvolfir augum, gerir úlfalda úr mýflugu, miklar allt fyrir sér og svo framvegis.
Mælt með: Láttu skýrt í það skína að þú hafir ekki áhuga á þessu samtali. Því það að gefa viðkomandi athygli eru akkúrat viðbrögðin sem viðkomandi vill helst fá.
Sá svartsýni
Þetta er vinnufélaginn sem gerir alltaf ráð fyrir því versta. Sama hvað er; Hlutirnir eru alltaf líklegir til að fara á versta veg. Stundum meira að segja svo að annað fólk hefur ekki ímyndunarafl til að hugsa upp allar bölsýnirnar sem viðkomandi sér fyrir sér sem afleiðingar eða þróun atburðarásar.
Mælt með: Hér er best að mæta bölsýninni með staðreyndum um hið gagnstæða.