Golf

Gunn­laugur Árni fagnaði og fer í hóp fimm­tíu bestu

Sindri Sverrisson skrifar
Gunnlaugur Árni Sveinsson og félagar í sigurliði LSU í Kaliforníu í gær.
Gunnlaugur Árni Sveinsson og félagar í sigurliði LSU í Kaliforníu í gær. @lsumensgolf

Gunnlaugur Árni Sveinsson fagnaði sigri með liði sínu LSU og hafnaði sjálfur í 3. sæti í einstaklingskeppninni á afar sterku móti í bandaríska háskólagolfinu í gær.

Gunnlaugur Árni lék hringina þrjá á Pauma Valley Invitational í Kaliforníu á samtals sjö höggum undir pari. Hann lék fyrstu tvo hringina samtals á -3 höggum, eða 69 og 70 höggum, en var svo eini kylfingurinn til að leika lokahringinn án þess að fá skolla eða skramba og fór hann á 67 höggum eða fjórum höggum undir pari.

Gunnlaugur Árni endaði aðeins tveimur höggum á eftir sigurvegaranum Christian Maas úr Texas-háskólanum en félagi hans úr LSU, Algot Kleen, varð í 2. sæti á -8 höggum.

Gunnlaugur Árni Sveinsson og félagar í sigurliði LSU í Kaliforníu í gær.@lsumensgolf

Fram kemur á golf.is að mótið sé eitt allra sterkasta háskólamót ársins, með átta af tuttugu efstu kylfingum heimslista áhugakylfinga, og nánast í hæsta mögulega styrkleika áhugamóta (900+ stig af 1.000 mögulegum, samanborið við 111 stig sem Íslandsmótið í höggleik í fyrra hafði).

Með sínum magnaða árangri á fyrsta ári í háskólagolfinu hefur Gunnlaugur Árni nú tryggt sér sæti á meðal fimmtíu bestu áhugakylfinga heims á næsta heimslista.

Lið hans, LSU, vann afar öruggan sigur í liðakeppninni eða með tíu högga mun, þrátt fyrir að vera talið 7. besta háskólalið Bandaríkjanna og í keppni við liðin sem eru í 2.-6. sæti listans.

Lokastöðuna á mótinu má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×