Atvinnulíf

Inn­sæið: Við stressum oft fólk upp með spurningum og pressu

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Rakel Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Vesturports, lærði 25 ára að vera ekki með stress eða drama. Sem hún segir samfélagið svolítið kynda undir, því miður vegna þess að það að slá af stressinu hjálpar okkur til að heyra betur hvað innsæið okkar er að segja.
Rakel Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Vesturports, lærði 25 ára að vera ekki með stress eða drama. Sem hún segir samfélagið svolítið kynda undir, því miður vegna þess að það að slá af stressinu hjálpar okkur til að heyra betur hvað innsæið okkar er að segja. Vísir/Anton Brink

„Ég er nú svo hvatvís að ég veit varla í hvaða átt ég er að fara, hvað þá að ég viti hver þessi innri áttaviti er,“ segir Rakel Garðarsdóttir framkvæmdastjóri Vesturports með meiru og hlær.

Að öllu gamni slepptu segir Rakel.

„Innsæið okkar er eins og einhvers konar tilfinning sem við fáum fyrir hlutunum. Til dæmis það sem við köllum að fá góða tilfinningu. Sem getur hjálpað okkur að taka ákvarðanir enda miða ég svo sem alltaf við það að allar ákvarðanir sem ég tek eru ákvarðanir sem ég verð að standa og falla með sjálf.“ 

Rakel hefur auðvitað eins og aðrir hefur líka upplifað það að hlusta ekki á innsæið sitt.

„Maður hefur oft fengið einhverja hugmynd en ekki sýnt þrautseigjuna til þess að fylgja henni eftir. Meðal annars vegna þess að maður fer að hlusta á einhverja snillinga sem eru að telja manni trú um að eitthvað muni ekki ganga upp. Síðan líða fimm til sex ár og þá sér maður einhvern annan vera að vinna að þessari sömu hugmynd. Sem innsæið var kannski að benda mér á að framkvæma á sínum tíma,“ segir Rakel en bætir við:

„Ekki það að ég trúi líka á almættið og það að mögulega eigi það líka oft við að eitthvað er einfaldlega betur gert af öðrum en mér. Ég horfi aldrei í baksýnisspegilinn með eftirsjá.“

UAK ráðstefnan 2025 verður haldin á laugardaginn kemur. Yfirskriftin að þessu sinni er „Innri áttavitinn; Leiðir liggja til allra átta.“ Í gær og í dag ræðir Atvinnulífið við tvær forystukonur um innsæið og hvernig það hefur nýst þeim að þora að hlusta á sinn eiginn innri áttavita.

Samfélagið alltaf að búa til pressu

Í kynningu um UAK 2025 segir:

Við viljum hvetja gesti til að staldra við, hlusta á innsæið og skoða þau gildi sem móta stefnu þeirra í lífinu.

Að hlusta segir Rakel í raun snúast mikið um að slá af allri streitu.

„Ég lærði það 25 ára að stressast aldrei upp. Að vera ekki stressuð yfir morgundeginum eða næstu mánaðamótum. Ég geri ekki lítið úr því hvað margir upplifa kvíða en vill þó benda á að tilfinningar eins og kvíði eða streita eru tilfinningar sem við höfum sjálf búið til. Það að ná að láta af þessu stressi, getur  hjálpað okkur að hlusta á innri áttavitann okkar og heyra hvað innsæið segir.“

Í þessu samhengi tekur Rakel nokkur dæmi:

Ung var ég rosalega stressuð yfir því hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. 

Því þannig spyrjum við allt ungt fólk: 

Hvað ætlar þú að læra? Hvað ætlar þú að verða? 

Þetta gerir lítið annað en að búa til mikla pressu á fólk og ég man eftir því að hafa hugsað: 

Sjit, það er eitthvað að mér að vera ekki búin að ákveða hvað ég ætli að verða eða læra.“

Það sem Rakel lærði síðan var frekar einföld lexía:

„Málið er að við þurfum ekkert að stressa okkur á þessu. Það er allt í lagi að vera ungur og vera ekki búin að ákveða hvað maður ætlar að verða. Í mínu tilfelli þróaðist það bara smám saman og varð að einhverju síðar.“

Til að hjálpa fólki að slá af stressi, mögulega til þess að heyra betur og oftar í sínu eigin innsæi, mætti samfélagið skoða að breyta um takt.

„Hvers vegna hittum við ekki frekar fólk og spyrjum hvort það sé hamingjusamt í lífinu og líði vel? Því það er nógu flókið að vera manneskja að við séum ekki með spurningar þess eðlis að þær stressi fólk upp eða setji það í einhver fyrir fram mótuð box.“

Vesturport hefur framleitt fjöldann allan af snilldar verkum; til dæmis Vigdísarþættina, Verbúðina, leiksýninguna um Ellý eða sjónvarpsþættina Fangar. Rakel segir innsæi eflaust eiga sinn þátt í velgengninni, þar sem hópurinn tekur ákvörðun miðað við þá tilfinningu sem fólk hefur fyrirfram fyrir verkefnum; Hvað fólk er líklegt til að vilja sjá.Vísir/Anton Brink

Samvinna og ekkert stress

Almennt segir Rakel þumalputtaregluna sína vera þá að velta fyrir sér: Hvað er það versta sem getur gerst? Því rökhugsunin sýni þá oftast að það versta er varla svo slæmt eftir allt saman.

Að hafa góða tilfinningu fyrir einhverju er þó eitthvað sem skiptir miklu máli. Ekki síst hjá hóp eins og Vesturport sem í gegnum árin hefur framleitt hvert snilldarverkið á fætur öðru; Nú síðast Vigdísarþættina svokölluðu, Verbúðarþættina, leiksýninguna um Ellý eða sjónvarpsþættina Fanga.

Í öllum tilfellum er hópurinn að taka ákvarðanir meðal annars byggðar á því hver tilfinningin er: Hvað á eftir að slá í gegn og hvað ekki?

„Við framleiðum fyrst og fremst þær hugmyndir sem fæðast hjá okkur, efni sem við höfum trú á sjálf og þá helst sögur sem okkur finnst miklu máli að segja og þurfi að segja. Það er því extra ánægjulegt þegar áhorfendur er því sammála. Líklegast er það einhvers konar tilfinning; innsæi hópsins sem ræður þar för,“ segir Rakel og bætir við:

„Ég hef einmitt mjög mikla trú á svona hópvinnu eins og við höfum tamið okkur í Vesturport. Þar sem allir fá að njóta sín og við vinnum saman í fullkomnu trausti. Oft hef ég meira að segja velt því fyrir mér hvernig heimurinn gæti verið ef við myndum vinna meira saman sem hópur, leggja áherslu á kærleikann, að styðja við hvort annað þannig að allir hefðu svigrúm til að gera meira af því sem fólki langar til og ekkert egó er til staðar,“ segir Rakel.

Sem er einmitt fín ábending líka því auðvitað fylgir ekkert egó innsæinu.

Rakel segir samt miklu skipta að taka ekki umræðuna um innsæið eða innri áttavitann of langt. Svona eins og oft virðist verða á Íslandi; nú eigi allir að vera í andlegum málum að hlusta á innsæið sitt, að gera upp gömul mál með hugvíkkandi efnum og svo framvegis. Það sé oft óþarfi að flækja lífið svona mikið.Vísir/Anton Brink

Góðu ráðin: Jafnaðargeð og einfaldleikinn

Að þessu sögðu segir Rakel þó mikilvægt að flækja hlutina ekki um of.

„Skemmtilegasta og lærdómsríkasta starfið sem ég hef unnið er þegar ég var ung að vinna sem barþjónn. Því sem barþjónn lærir maður rosalega mikið: Að lesa með hraði í hvern kúnna, leysa úr erfiðum aðstæðum, rífast ekki og einfaldlega díla við fólk og slökkva elda án þess að fara á háa C-ið í stressi,“ segir Rakel og bætir við:

„Þarna lærði ég að það að vera með gott jafnaðargeð og enga græðgi er veganesti sem hjálpar mikið.“

Því með gott jafnaðargeð eigum við mögulega auðveldara með að finna hvað tilfinningin er að segja okkur.

„En síðan tekst okkur svo oft að flækja hlutina og búa til pressu. Því allir eiga að standa sig svo vel; fá frábærar einkunnir í námi og vera síðan framúrskarandi í einu og öllu í starfi. Allt eru þetta streituvaldandi þættir sem auka líkurnar á að fólk einfaldlega fer fram úr sjálfum sér, í stað þess að slaka bara á og sjá hvert það leiðir.“

Rakel segir þó lífinu fylgja alls kyns erfiðleikar og áföll sem fólk þarf að takast á við. Þar sé þó oft einfaldlega best að hafa í huga alls kyns góð orðatiltæki eins og að læra af mistökum sínum eða læra af reynslunni og svo framvegis.

„Því allar þessar gömlu góðu klisjur eru einfaldlega réttar.“

Að sama skapi þurfi fólk að passa að fara ekki fram úr sér í umræðunni um innsæi eða innri áttavitann.

Á Íslandi eigum það til að taka hlutina allt of langt. 

Þannig að þótt það geti verið jákvætt út af fyrir sig að vera meðvituð um innsæið okkar eða átta okkur á okkar eigin innri áttavita, má það ekki fara að snúast upp í andhverfu sína því nú eru allir uppteknir í því,“ 

segir Rakel og útskýrir mál sitt nánar:

„Nú eru allir í þessari sjálfsvinnu sem gengur út á að allir eiga að vera að gera eitthvað; Að vera í andlegum málum og hlusta á innsæið sitt, að fara á hugvíkkandi efni til að gera upp einhver gömul mál og svo framvegis. 

Þetta getur orðið voða flókið og ef við förum of langt í þessum efnum, erum við enn einu sinni að búa til nýja pressu á fólk. 

Ég segi því frekar: 

Fínt mál að hlusta á innsæið okkar og vita hvað það er. 

En pössum okkur samt á að gera lífið ekki of flókið. 

Það er einfaldlega óþarfi.“


Tengdar fréttir

„Ég nota innsæið mitt mjög mikið enda er innsæið ekkert tabú“

„Ég nota innsæið mitt mjög mikið enda er innsæið ekkert tabú. Nota það meira og meira eftir því sem ég verð eldri,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra, ein fjölmargra kvenna sem næstkomandi laugardag mun ræða um innsæið á UAK ráðstefnunni 2025.

Unga fólkið greinilega að hugsa um sjálfbærnimálin

Niðurstöður Sjálfbærniásins í fyrra sýna að unga fólkið er greinilega að hugsa mikið um sjálfbærnimálin. Þannig sögðu 60% fólks á aldrinum 18-24 ára að sjálfbærnimál fyrirtækja skipti miklu máli.

„Hvernig hefðu amma og afi gert þetta?“

„Við heyrum af því að Íslandsstofa er kannski að leggja gríðarlega fjármuni í auglýsingaherferðir þar sem Ísland er auglýst sem þessi hreina og fallega náttúruperla sem Ísland er. Við gerum út á þennan hreinleika og erum stolt af þeirri ímynd sem Ísland hefur skapað sér,“ segir Soffía Sigurgeirsdóttir, einn eigenda ráðgjafafyrirtækisins Langbrók.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×