Berglind Björg Þorvaldsdóttir, sem fór frá Hlíðarenda í Kópavoginn fyrr í vetur, tók forystuna fyrir Breiðablik á 19. mínútu með fínni vinstri fótar afgreiðslu eftir fyrirgjöf Samönthu Smith.
Snemma í seinni hálfleik átti Fanndís Friðriksdóttir frábært skot, sem small í stöngina inn, og jafnaði leikinn fyrir Valskonur gegn sínu uppeldisfélagi.
Útlit var fyrir vítaspyrnukeppni en á lokamínútu leiksins átti Andrea Rut Bjarnadóttir lúmskt skot sem skoppaði í fjærhornið og tryggði Breiðabliki sigur.
Breiðablik mun því mæta annað hvort Þór/KA eða Stjörnunni í úrslitaleik Lengjubikarsins en undanúrslitaleikur þeirra fer fram á mánudaginn. Úrslitaleikur Lengjubikarsins verður spilaður föstudaginn 28. mars.