Breytingin sem Íslensk getspá hefur óskað eftir að dómsmálaráðuneytið geri á reglugerð fyrir talnagetraunir er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Hún felst fyrst og fremst í því að fjölga kúlunum úr 42 í 45. Heitið breytist þá úr Lottó 5/42 í Lottó 5/45. Fulltrúi Íslenskrar getspár sagði RÚV að breytingunni væri ætlað að mæta fólksfjölgun á Íslandi.
Afleiðing þess að fjölga kúlunum sem dregið er úr um þrjár er að líkurnar á vnningi dvína töluvert. Þannig fara líkurnar á því að ná fimm aðaltölunum réttum úr einum á móti 850.668 í einum á móti 1.221.759.
Líkurnar á minnstu vinningunum minnka einnig. Þær eru nú 1:128 að fá vinning fyrir þrjár réttar aðaltölur en með breytingunni yrðu líkurnar 1:165.
Einnig er lagt til að breyta því hvernig heildarpotturinn skiptist. Fram að þessu hafa 54,5 prósent vinningar í Lottói skipst jafnt á milli þeirra sem hafa allar fimm aðaltölur réttar en lagt er til að það hlutfall verði 57 prósent. Hlutdeild þeirra sem hafa fjórar aðaltölur og bónustölu rétta á að færast úr 2,5 prósentum í tvö prósent.
Á móti verður hlutdeild þeirra sem hafa tvær aðaltölur réttar og rétta bónustölu aukin úr átta prósentum í tíu.