Íslenski boltinn

Besta-spáin 2025: Stórir draumar í Laugar­dalnum

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir Þrótti 4. sæti Bestu deildar kvenna í sumar.

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Álfhildur Rósa Kjartansdóttir hefur verið fyrirliði Þróttar síðan hún var átján ára. vísir/anton

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir Þrótti 4. sæti Bestu deildar kvenna í sumar.

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir að venju fyrir um gengi liðanna í Bestu deild kvenna með árlegri spá sinni fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst með tveimur leikjum þriðjudaginn 15. apríl.

Íþróttadeild spáir Þrótti 4. sæti Bestu deildarinnar í sumar og liðið lendi einu sæti ofar en í fyrra.

Mikla athygli vakti þegar Ólafur Kristjánsson var ráðinn þjálfari Þróttar í stað Niks Chamberlain sem fór til Breiðabliks og gerði liðið að Íslandsmeisturum. Ekki er hægt að segja að Þróttarar hafi farið vel af stað á síðasta tímabili. Liðið vann ekki sinn fyrsta leik fyrr en í 7. umferð en varð betra eftir því sem á sumarið leið.

Ólafur Kristjánsson þreytti frumraun sína í kvennaboltanum í fyrra.vísir/anton

Þróttur tryggði sér sæti í úrslitakeppni efri hlutans með dramatískum sigri á Stjörnunni í 18. umferð. Þróttarar unnu aðeins einn leik í úrslitakeppninni en enduðu í 5. sæti sem var fínasta niðurstaða. Síðan Þróttur kom upp í efstu deild 2020 hefur liðið ekki endað neðar en í 5. sæti og komst í bikarúrslit 2021.

Líklegt byrjunarlið Þróttar (4-2-3-1):

Mollee Swift

María Eva Eyjólfsdóttir - Sóley María Steinarsdóttir - Jelena Tinna Kujundzic - Mist Funadóttir

Álfhildur Rósa Kjartansdóttir - Þórdís Elva Ágútsdóttir

Caroline Murray - Katie Cousins - Freyja Karín Þorvarðardóttir

Unnur Dóra Bergsdóttir

Stærstu tíðindin úr Laugardalnum í vetur eru þau að Katie Cousins er komin aftur í röndótta búninginn eftir eitt ár í Val. Þótt Katie sé ekki há í loftinu er hún sannkallaður hvalreki fyrir Þrótt enda verið einn besti leikmaður deildarinnar undanfarin ár. 

Komnar:

  • Katie Cousins frá Val
  • Þórdís Elva Ágústsdóttir frá Växjö (Svíþjóð)
  • Unnur Dóra Bergsdóttir frá Selfossi
  • Mist Funadóttir frá Fylki
  • Klara Mist Karlsdóttir frá Fylki
  • Birna Karen Kjartansdóttir frá Augnabliki
  • Hildur Laila Hákonardóttir frá KR (úr láni)

Farnar:

  • Melissa García til Sviss
  • Leah Pais til Toronto (Kanada)
  • Chanté Sandiford til Selfoss
  • Íris Una Þórðardóttir til FH (var á láni hjá Fylki)

Fyrir komu Katies hafði Þróttaramiðjan einnig styrkst með komu Þórdísar Elvu Ágústsdóttur frá Växjö í Svíþjóð. Katie, Þórdís og fyrirliðinn Álfhildur Rósa Kjartansdóttir mynda gríðarlega sterka miðju; kannski þá öflugustu í deildinni.

Þá fengu Þróttarar Mist Funadóttur og Klöru Mist Karlsdóttur frá Fylki, fyrirliða Selfoss, Unni Dóru Bergsdóttur, auk þess sem Hildur Laila Hákonardóttir kemur reynslunni ríkari eftir lánsdvöl hjá KR. Unnur Dóra mun væntanlega byrja tímabilið í nýrri stöðu, sem fremsti maður Þróttar.

Hvað segir sérfræðingurinn?

„Mikil spenna er fyrir tímabilinu í Laugardalnum. Liðið er með einn reyndasta og færasta þjálfara deildarinnar. Hann gerði vel með liðið á síðasta tímabili en þá hafði Þróttur misst gríðarlega mikið fram á við. Liðið var vel skipulagt og vel spilandi í fyrra en vantaði ákveðnar týpur leikmanna í hópinn til að setja alvöru þunga í keppni í efri hlutanum,“ segir Mist Rúnarsdóttir, sem er sérfræðingur Bestu markanna líkt og síðustu ár.

„Nú reynir á þjálfarann því hann hefur fengið inn mjög góðar styrkingar og samhliða því er pressan sú að stigin verði fleiri og liðið verði nær toppliðunum. Varnarlína liðsins hefur verið nokkuð traust síðustu tímabil og verður það áfram. Mollee Swift verður áfram í markinu. Hún var vaxandi í fyrra og lítur betur út í ár en í upphafi síðasta tímabils.“

„Miðjan hefur verið sterk undanfarið en vantaði sköpunarkraft í fyrra. Nú eru heldur betur komnar góðar viðbætur í Katie Cousins og Þórdísi Elvu sem eru báðar þungavigtarleikmenn fyrir hvaða lið sem er í deildinni. Stóra spurningamerkið er framherjastaðan. Það eru leikmenn þarna sem hafa sýnt að þær geta spilað í Bestu deildinni en hafa ekki verið að rjúfa neina markaskorunarmúra og það er ekki augljóst hver á að verða helsti markaskorari Þróttar í sumar. Það eru 3-4 sem gera tilkall til þess en engin augljós. Það er kannski helsta áhyggjuefnið; hver á að skora mörkin?“

„Með núverandi mannskap á Þróttur að stríða toppliðunum og taka 3. sætið. Umgjörðin í Laugardalnum er orðin mjög góð og það er mikil stemmning í kringum liðið.“

María Eva Eyjólfsdóttir lék alla 23 leiki Þróttar í Bestu deildinni á síðasta tímabili og skoraði þrjú mörk.vísir/anton

Lykilmenn

  • Mollee Swift, 24 ára markvörður
  • Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, 24 ára miðjumaður
  • Katie Cousins, 28 ára miðjumaður

Fylgist með

Þórdís Nanna Ágústsdóttir fékk smjörþefinn af Bestu deildinni í fyrra og skoraði þá tvö mörk í fjórum leikjum. Þórdís, sem er aðeins sextán ára, hefur skorað mikið í yngri flokkunum undanfarin ár og lofar afar góðu fyrir framtíðina. Getur hún skorað mörkin sem margir óttast að vanti í lið Þróttar? 

Í besta/versta falli

Það er hugur í Þrótturum og það er innistæða fyrir bjartsýni. Afar gott starf hefur verið unnið í Laugardalnum undanfarin ár og Þróttur er búinn að festa sig í sessi í efri hluta Bestu deildarinnar. Og Þróttarar verða þar áfram nema einhverjar hamfarir eigi sér stað. Þróttur stendur Breiðabliki og Val talsvert að baki en liðið ætti hiklaust að stefna á 3. sætið og jafna þar með besta árangur sinn í sögunni.


Tengdar fréttir






×