Andrea Jacobsen og Díana Dögg Magnúsdóttir voru báðar í leikmannahópi Blomberg-Lippe í dag en Díana Dögg er að snúa aftur eftir meiðsli.
Andrea skoraði tvö mörk úr fjórum skotum í 29-25 sigri Blomberg-Lippe sem er í 4. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar, ellefu stigum á eftir toppliði Ludwigsburg en í baráttu við Dortmund og Thuringer um 2. sætið.
Hvorki Elvar Örn Jónsson né Arnar Freyr Arnarsson voru í leikmannahópi Melsungen sem vann góðan sigur á Bietigheim í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Báðir hafa þeir verið að glíma við meiðsli en Elvar Örn sneri þó til baka í síðasta leik liðsins en var ekki með í dag.
Melsungen vann 32-28 sigur og er í 2. sæti deildarinnar með jafn mörg stig og Fusche Berlin. Hannover-Burgdorf er í 3. sæti en á leik til góða.
Íslendingaliðið Gummersbach var í heimsókn hjá Kiel og þurfti að sætta sig við sex marka tap, lokatölur 31-25. Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk fyrir Gummersbach í dag en Elliði Snær Viðarsson var ekki í leikmannahópi liðsins.