Íslenski boltinn

„Stundum þá skapar maður bara sína eigin heppni með al­vöru vinnu­fram­lagi“

Kári Mímisson skrifar
Davíð Smári fylgist íbygginn með af hliðarlínunni.
Davíð Smári fylgist íbygginn með af hliðarlínunni. Vísir/Anton

Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, var sáttur með leik sinna mann í dag gegn Val á Hlíðarenda. Vestri sótt þar gott stig á erfiðum útivelli.

„Ég er gríðarlega sáttur með karakter liðsins hér í dag. Varnarlega fannst mér við vera frábærir, fórnuðum okkur í alla bolta og sýndum mikla liðsheild. Ég er aftur á móti ekkert rosalega sáttur með hvernig við vorum á boltanum í dag, mér fannst við eiga of mikið af skítugum sendingum sem við þurfum að hreinsa betur til í. Annars er ég bara sáttur með stigið sem við sóttum hér í dag,“ sagði Davíð Smári við Vísi eftir leik.

En má ekki segja að þetta hafi verið sterkt stig í þessari fallbaráttu sem ykkur er spáð í?

„Menn geta svo sem horft á það þannig en ég hef auðvitað mjög mikla trú á þessu liði mínu og á auðvitað stóran þátt í að setja það saman. Við erum með mikið af leikmönnum sem ætla að gera mikið við sýna ferla sem myndar ákveðið samband inn í þetta lið. Ég hef mikla trú á þessu liði þó svo að aðrir hafi hana ekki, þannig að það er bara mitt svar við þessu.“

Spurður út í markið sem Vestri skoraði í dag segist Davíð ekki getað eignað sér það og segir að það hafi verið ákveðinn heppni yfir þessu stigi í dag. Heppni getur vissulega verið sköpuð og það má segja að Vestri hafi gert það í dag.

Davíð Smári segir sínum mönnum til.Vísir/Anton

„Ég ætla ekki að eigna mér það að við höfum skorað þetta mark. Við ætluðum okkur auðvitað að byrja seinni hálfleikinn af krafti og halda aðeins betur í boltann. Svo skorum við þetta mark á hálfgerðri tombólu. Þetta var ákveðinn heppni og það var heppni með okkur í dag, það er alveg klárt en stundum þá skapar maður bara sína eigin heppni með alvöru vinnuframlagi.“

Daði Berg Jónsson byrjaði í dag fyrir Vestra og var sprækur, hann þurfti aftur á móti að fara meiddur af velli þegar skammt var til leiksloka. Davíð segir að það hafi ekki verið alvarlegt og hrósar Daða fyrir sinn leik í dag.

„Ég held að hann hafi bara fengið smá krampa en ekkert alvarlegt. Hann var gríðarlega duglegur og flottur í leiknum.“

Glugginn enn opinn, eru þið að leita eftir nýjum leikmönnum áður en hann lokar?

„Við erum alltaf opnir fyrir því að fá inn góða leikmenn. Það verða líka að vera leikmenn sem passa inn í það sem við erum að gera, ekki bara gæðalega heldur líka andlega. Við þurfum ákveðnar týpur af leikmönnum og ég er með fullan hóp af þannig týpum, þannig að ef við ætlum að fá okkur nýja leikmenn þurfa þeir að passa eins og flís við rass við það sem við erum að gera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×