Chelsea steig stórt skref í átt að undanúrslitum Sambandsdeildarinnar með sannfærandi útisigri á pólska liðinu Legia Varsjá í dag í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Sambandsdeildarinnar.
Chelsea vann leikinn 3-0 en það var samt enn marklaust í hálfleik. Noni Madueke skoraði tvö mörk og Tyrique George eitt. Jadon Sancho gaf tvær stoðsendingar.
Kiernan Dewsbury-Hall var næstur því að skora fyrir Chelsea framan af leik en það var loks hinn nítján ára gamli Tyrique George sem braut ísinn á 49. mínútu.
Tyrique George fylgdi þá eftir skoti Reece James sem var varið og skoraði af stuttu færi úr markteignum.
Noni Madueke bætti við öðru marki Chelsea átta mínútum síðar eftir að hafa fengið sendingu inn í teiginn frá Jadon Sancho.
Umræddur Kiernan Dewsbury-Hall fiskaði svo vítaspyrnu á 73. minútu en Christopher Nkunku lét pólska markvörðinn Kacper Tobiasz verja frá sér.
Um hálfri mínútu eftir vítaklúðrið lá boltinn þó í markinu þegar Noni Madueke skoraði aftur eftir stoðsendingu frá Jadon Sancho. Skoraði af stuttu færi úr markteignum.