Íslenski boltinn

Völsungur vann vítaspyrnukeppni á af­mælis­deginum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Völsungur vann aðra deildina í fyrra og byrjar vel í bikarnum þetta árið.
Völsungur vann aðra deildina í fyrra og byrjar vel í bikarnum þetta árið. 640.is

Fótboltalið Völsungs fagnaði 98 ára félagsins með því að komast áfram í 32 liða úrslit Mjólkurbikarsins eftir sigur í vítaspyrnukeppni á útivelli gegn Tindastóli. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli en 7-8 fyrir Völsung eftir vítaspyrnukeppnina.

Arnar Ólafsson kom heimamönnum yfir rétt fyrir hálfleik en Davíð Örn Aðalsteinsson jafnaði fyrir Völsung seint í seinni hálfleik. Leikurinn var því framlengdur en það dugði ekki til að skilja liðin að og haldið var í vítaspyrnukeppni.

Elvar Baldvinsson klikkaði úr fyrstu vítaspyrnu Völsungs en Svetislav Milosevic klikkaði úr annarri spyrnu Tindastóls. Bæði lið klikkuðu svo úr fimmtu spyrnunni og farið var í bráðabana.

Eysteinn Bessi Sigmarsson klikkaði þá úr áttunda víti Tindastóls, eftir að Steinþór Freyr Þorsteinsson hafði skorað úr áttunda víti Völsungs.

Völsungur vann því vítaspyrnukeppnina með sjö skoruðum spyrnum gegn sex og komst áfram í 32 liða úrslit Mjólkurbikarsins. Ekki amaleg leið til að fagna 98 ára afmæli félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×