Íslenski boltinn

Stúkan ræddi um­deilt víti KR-inga: „Þetta er ekkert eðli­lega heimsku­legt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Benediktsson ræddi vítaspyrnudóminn við þá Baldur Sigurðsson og Albert Brynjar Ingason í Stúkunni i gær.
Guðmundur Benediktsson ræddi vítaspyrnudóminn við þá Baldur Sigurðsson og Albert Brynjar Ingason í Stúkunni i gær. S2 Sport

Jóhannes Kristinn Bjarnason tryggði KR jafntefli á móti Val í Bestu deild karla í fótbolta í gærkvöldi með marki úr umdeildri vítaspyrnu á níundu mínútu í uppbótatíma. Gummi Ben og sérfræðingar hans Stúkunni ræddu þennan dóm.

Vítið var dæmt á Hólmar Örn Eyjólfsson fyrir brot á Aroni Þórði Albertssyni. Hólmar fékk einnig sitt annað gula spjald fyrir brotið. Vítið var síðasta spyrna leiksins.

Klippa: Stúkan: Vítadómurinn sem færði KR stig á móti Val

„Hér er aukaspyrnan og þeir eru á vítateigslínunni eða svona í kringum hana. Í fyrstu virkaði þetta á mig eins og þetta væri fyrir utan teig en ég er að bíða eftir endursýningunni,“ sagði Guðmundur Benediktsson og sýndi brotið.

„Er Aron Þórður kominn með vinstri fótinn á vítateigslínuna,“ spurði Guðmundur.

„Nei, við sjáum það vel hérna,“ sagði Baldur Sigurðsson, sérfræðingur Stúkunnar.

„Hversu heimskulegt er þetta? Það eru samt meiri líkur en ekki að þetta sé fyrir utan. Þetta er mjög tæpt. Hólmar er að taka ákveðinn sjens með þessu,“ sagði Albert Brynjar Ingason, sérfræðingur Stúkunnar.

„Þú ert fyrirliði liðsins og það er við það fara að flauta til leiksloka. Þetta eru bara einhverjir töffara stælar. Að halda áfram með einhvern kýting síðan rétt áður. Kláraðu bara leikinn og komdu þá með eitthvað komment í andlitið á Aroni eftir að þú ert búinn að fagna þessum þremur stigum,“ sagði Albert.

„Þetta er ekkert eðlilega heimskulegt,“ sagði Albert.

„Þetta er ofboðslega skrýtin ákvörðun. Ég ætla að segja það. Þetta er það skrýtin ákvörðun að þú átt eiginlega skilið að það sé dæmd á þig vítaspyrna,“ sagði Guðmundur.

Það má horfa á umræðuna og sjá brotið umdeilda hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×