Íslenski boltinn

„Komin ó­trú­lega langt miðað við hversu stutt er síðan hún átti sitt fyrsta barn“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Metta Jensen er í öðru sæti í mörkum og í fimmta sæti í leikjum hjá kvennaliði Vals í efstu deild.
Elín Metta Jensen er í öðru sæti í mörkum og í fimmta sæti í leikjum hjá kvennaliði Vals í efstu deild. @valurfotbolti

Elín Metta Jensen hefur gengið frá samningi við Val og mun því spila með Valsmönnum í Bestu deild kvenna í fótbolta í sumar.

Samningurinn er til eins árs en með möguleika á eins árs framlengingu. Valsarar eru að endurheimta landsliðskonu sem hefur farið mikinn á Hlíðarenda.

Elín Metta er nefnilega að koma aftur heim í uppeldisfélagið sitt en hún lék síðast með Þrótti áður en hún tilkynnti óvænt að hún væri hætt löngu fyrir þrítugt.

Elín Metta er næst markahæsti leikmaður kvennaliðs Vals í efstu deild með 132 mörk en hún er 27 mörkum á eftir Margréti Láru Viðarsdóttur.

Elín jafnar einnig leikjafjölda goðsagnarinnar Ragnheiðar Víkingsdóttir í næsta leik en Ragnheiður er fjórða leikjahæsti leikmaður kvennaliðs Vals í efstu deild með 184 leiki.

„Það er auðvitað mikið gleðiefni fyrir okkur Valsara að fá Elínu Mettu til okkar á ný. Hér er hún uppalin og hefur heldur betur staðið sig vel fyrir félagið. Hún hefur verið að æfa með okkur upp á síðkastið og er komin ótrúlega langt miðað við hversu stutt er síðan hún átti sitt fyrsta barn. Það verður gaman að sjá hana í Valsbúningnum í sumar,“ segir Styrmir Þór Bragason varaformaður knattspyrnudeildar Vals, í frétt á miðlum Vals.

Sjálf er Elín Metta í skýjunum með að vera komin aftur í Val en hún lék síðast með liðinu árið 2022.

„Ég er mjög ánægð með að vera komin aftur heim á Hlíðarenda. Það er margt spennandi í gangi í klúbbnum og leikmannahópurinn er mjög öflugur með góða blöndu af reynslumiklum og efnilegum leikmönnum. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum,“ segir Elín Metta Jensen leikmaður Vals, við miðla Vals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×