Sigurður er fæddur í desember árið 2009. Fimmtán ára og 125 daga gamall þegar leikurinn fór fram á mánudag, rúmum fjórum mánuðum yngri en Eiður var þegar hann byrjaði sinn fyrsta leik.
„Þetta er að sjálfsögðu mikill heiður og ég var ekki að búast við þessu… Ég var náttúrulega alveg stressaður fyrst, en svo þegar leið á og styttist í leikinn þá varð ég bara spenntur“ sagði Sigurður í viðtali sem var sýnt í Sportpakkanum í gærkvöldi og má sjá hér fyrir neðan.
Sigurður stóð sig vel í leiknum, lék allar níutíu mínúturnar og var valinn maður leiksins af stuðningsmönnum KR.
„Það var náttúrulega bara geggjuð tilfinning og gaman að byrja þetta svona.“
Fær hæfileikana frá mömmu
Yfirleitt þegar svona ungir leikmenn skjótast skyndilega upp á stjörnuhimininn eru þeir íþróttaættaðir, af afreksfólki komnir. Sigurður sagði svo ekki vera, en þakkar móður sinni fyrir að erfa hann góðum eiginleikum.
„Ég held að ég fái [hæfileikana] frá mömmu. Hún er með þyngdarpunktinn, sem er minn helsti styrkleiki.“

Sigurður leiðrétti síðan misskilning sem var á margra vörum eftir leikinn. Hann er ekki 155 sentimetrar á hæð, heldur 162 sentimetrar. Örlítið minni en Lionel Messi, en er auðvitað aðeins fimmtán ára og á eftir að stækka.
„Já, ég á nóg inni“ sagði Sigurður, sem glímdi mikið við Hólmar Örn í leiknum, varnarmann Vals og vöðvabúnt sem er svona um það bil hundrað kíló.
Var það ekkert erfitt?
„Nei, ég spilaði bara minn leik og lét það ekkert trufla mig.“
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum að ofan. Næsti leikur KR er gegn KÁ í bikarnum. Liðið heimsækir síðan FH næsta miðvikudag.
