Það skiptir ekki máli hvað við vorum að gera en eftir svona gott og langt frí er stundum svolítið erfitt að snúa aftur til vinnu; Og komast í gírinn á ný!
Hér eru nokkur góð ráð sem geta hjálpað.
Þú gerir ekki allt í dag
Það er eðlilegt að vera ekki alveg í sjötta gírnum strax í dag. Við þurfum líka að heyra frá vinnufélögunum hvernig páskafríið þeirra var og svo framvegis.
Stundum er því ágætt að leyfa okkur smá andrými. Þó þannig að við séum ekki að slugsa neitt.
Gott er að útbúa verkefnalista þar sem forgangsröðunin er skýr um hvað þú þarft að klára í dag og hvað má mögulega bíða þar til síðar í vikunni.
Hafðu morguninn nokkuð lausan
Það er ekki verra að vera með fyrsta morguninn eftir frí nokkuð lausan. Nýta hann í góðan forgangs- og verkefnalista frekar en að sitja marga fundi. Því stundum þurfum við einfaldlega smá tíma til að ná yfirsýn yfir verkefnin okkar á ný, sérstaklega eftir góð frí þar sem við náðum að kúpla okkur vel frá vinnu.
Settu þér mörk
Loks er það þó sá sjálfsagi að fylgja síðan verkefnalistanum eftir. Ekki bara fyrir daginn í dag, heldur líka fyrir komandi vinnuviku. Því við viljum ekki vera í hálfum gír út alla vikuna, enn að jafna okkur.
Að ná að strika yfir verkefnin á listanum okkar er líka svo geggjuð tilfinning. Þannig að þótt ætlunin sé að leyfa hversdags lífinu að kikka rólega inn eftir góða fríið okkar, er til mikils að vinna strax á fyrsta vinnudegi að fara heim með góða tilfinningu eftir góðan vinnudag.