Íslenski boltinn

„Skoraði síðast þrennu í sjöunda flokki“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir var sjálf hissa á þrennunni sem hún skoraði í Garðabænum.
Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir var sjálf hissa á þrennunni sem hún skoraði í Garðabænum. hörður ágústsson

Fyrir leik Stjörnunnar og Víkings í Bestu deild kvenna í kvöld hafði Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir skorað þrjú mörk í 87 leikjum í efstu deild á Íslandi. Hún gerði sér hins vegar lítið fyrir og skoraði þrennu í 2-6 sigri Víkinga á Samsung-vellinum í kvöld.

Víkingur tapaði 1-4 fyrir Þór/KA í 1. umferð Bestu deildarinnar en fékk sín fyrstu stig eftir stórsigurinn í Garðabænum í kvöld.

„Við mættum til leiks. Við gerðum það svo sannarlega ekki í fyrsta leik. Við tókum okkur aðeins á í vikunni og sýndum hvað í okkur býr,“ sagði Áslaug í samtali við Vísi eftir leikinn.

Víkingar voru baneitraðir í föstum leikatriðum í kvöld en fjögur af sex mörkum liðsins komu eftir horn- og aukaspyrnur. Áslaug skoraði þrjú þeirra og Erna Guðrún Magnúsdóttir, sem leikur við hlið hennar í miðri vörn Víkings, eitt.

Áslaug var jafn hissa og allir aðrir á skyndilegri marksækni sinni í kvöld.

„Ég veit ekki. Ég var bara áræðin og gerði árás á boltann,“ sagði Selfyssingurinn.

En hefur hún einhvern tímann áður skorað þrennu?

„Já, það var bara í 7. flokki eða eitthvað,“ sagði Áslaug hlæjandi.

Sem fyrr sagði fengu Víkingar sín fyrstu stig í Bestu deildinni í kvöld. Áslaug segir að þær rauðu og svörtu séu bjartsýnar á framhaldið.

„Klárlega. Við mættum ekkert í fyrsta leik en sýndum klárlega í dag hvað í okkur býr. Ég held að þetta sé góð byrjun á góðu skriði sem mun halda áfram út tímabilið,“ sagði Áslaug að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×