En er það svo?
Því samkvæmt nýrri skýrslu Microsoft er þetta staðan. Og það sem meira er: Úrtakið voru 31 þúsund starfsmenn í 30 löndum.
Samkvæmt FastCompany jafngildir þetta því að starfsfólk sé truflað 275 sinnum á dag. Truflunin felst þá í alls konar: Að fara úr verkefni til að lesa nýjan tölvupóst, svara honum, fá tilkynningar á samfélagsmiðlunum, vera trufluð af samstarfsfélaga, vegna fundarhalda og truflun sem er eftir að vinnutíma lýkur.
Því já; Skýrslan er nefnilega að ljóstra því upp líka að allt þetta tal um jafnvægi heimilis og vinnu, er kannski ekki að skila sér í raunheimum sem skildi. Því samkvæmt skýrslu Microsoft, er starfsfólk mjög gjarnt á því að sinna einhverjum erindum fyrir vinnuna utan hefðbundins vinnutíma. Í skýrslu Microsoft kemur að minnsta kosti fram að miðað við notkun fólks á tölvupóstum og fleiri forritum, virðist vera sem svo að hefðbundinn vinnutími sé farinn að teygja sig ansi langt fram yfir átta klukkustundirnar. Þannig segir Microsoft að meðaltal vinnutengdra skilaboða sem send eru utan vinnutíma á fjögurra vikna tímabili séu 58 skilaboð. Stutt, löng, formleg, óformleg….skiptir ekki máli en allt er talið til.
Miðað við ofangreint virðist áreiti á fólk vera endalaust. Svo stöðugt er það. Það er því kannski ekki að undra að í sömu skýrslu kemur fram að 80% starfsfólks, stjórnendur þar með taldir, segjast ekki hafa nægilega mikinn tíma né orku til að sinna starfinu sínu eins vel og það myndi helst vilja.
Í skýrslu Microsoft kemur líka fram að það virðist vera aukning á vinnufundum eftir klukkan átta á kvöldin. Sem hljómar kannski furðulega en þetta skýrist að hluta til vegna þess að fólk er oft í samskiptum við aðra sem staðsettir eru á öðru tímabelti. Hvað veldur því að þessum fundum sé að fjölga er hins vegar erfiðara að skýra út. En fjölgun þessara funda er umtalsverð; 16% að meðaltali miðað við sömu rannsókn í fyrra og 30% ef aðeins er horft til þeirra sem starfa með fólki í öðru tímabelti.
Að sjálfsögðu kemur síðan fram í skýrslu Microsoft að til þess að bæta úr flestum ofangreindum liðum, þar á meðal til að sporna við kulnun, sé mikilvægi gervigreindarinnar augljós. Notkun gervigreindarinnar ætti að geta létt undir fólki í þeim störfum sem helst eiga við um þann hóp starfsmanna sem teljast til notenda Microsoft. Hvort gervigreindin muni snúa þessari þróun við þarf tíminn að leiða í ljós.