Handbolti

„Magnús Öder hefði fengið þrjú rauð fyrir sömu brot“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Einar vonsvikinn.
Einar vonsvikinn. Vísir/Diego

Einar Jónsson, þjálfara Fram, fannst dómgæslan ekki sanngjörn þegar lið hans fékk vænan skell í þriðja leik sínum við FH í undanúrslitum Olís-deildar karla í handbolta í Kaplakrika í kvöld. Einar benti réttilega á að staðan væri enn björt í herbúðum Fram þrátt fyrir stórt tap. 

„Þetta var leikur fram að lokum fyrri hálfleiks. Þá klúðurum við nokkrum dauðafærum í röð í stöðunni 14-9 og eftir það má segja við höfum kastað inn hvíta handklæðinu. Það var ákveðin andleg þreyt sem gerði vart við sig og það vantaði upp á hugarfarið til þess að koma okkur almennilega inn í leikinn aftur,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, eftir að lokaflautan gall.

„Þegar allt kemur til alls er bara einn leikur og það hefði ekkert endilega verið betra að tapa einu eftir hörkuleik. Við bara ýtum þessum leik frá okkur og núlltstillum okkur fyrir leikinn á sunnudaginn kemur. Við erum ennþá 2-1 yfir og þurfum bara einn vinning í viðbót. Staðan er því ennþá björt þrátt fyrir þungt kvöld,“ sagði Einar þar að auki.

„Það var raunar þannig að við hefðum þurft að spila eins og heimsmeistarar til þess að hafa betur í þessum leik. Leikmenn FH fengu að komast upp með hluti í varnarleik sínum sem við fengum alls ekki hinu megin. Ég held að Magnús Öder hefði verið kominn með þrjú rauð spjöld ef hann hefði varist eins og FH-ingar gerðu að þessu sinni,“ sagði hann ósáttur.

„Mér fannst leikurinn líka illa dæmdur þegar við unnum í síðasta leik þannig að ég er ekki að segja að við séum að vinna eða tapa út af dómgæslu. Ég er bara að kalla eftir því að fá samræmi í dómgæsluna og að við fáum að gæta jafnræðis í því hvernig við verjumst. En nú förum við aftur á móti bara að einbeita okkur að því að búa okkur undir leikinn á sunnudaginn,“ sagði hann um dómarapar leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×