Handbolti

Valskonur komust í 13-1 í fyrsta leik sinum í úr­slita­keppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lovísa Thompson átti góðan leik í dag eins og svo margir leikmenn hjá Valsliðinu.
Lovísa Thompson átti góðan leik í dag eins og svo margir leikmenn hjá Valsliðinu. Vísir/Anton Brink

Valskonur byrjuðu úrslitakeppni Olís deildar kvenna í handbolta af miklum krafti í dag eða með 21 marks sigri á ÍR, 33-12, í fyrsta leiknum í undanúrslitaeinvígi liðanna.

Valur sat hjá í fyrstu umferð þar sem ÍR-konur slógu út Selfosskonur.

Valskonur mættu heldur betur tilbúnar til leiks í dag en þær unnu fyrstu tuttugu mínúturnar 13-1 og voru sautján mörkum yfir í hálfleik, 20-3. Hafdís Renötudóttir varð 88 prósent skota sem komu á hana í fyrri hálfleik, þar af bæði vítin.

Eftir það var seinni hálfleikurinn algjört formsatriði en það munaði að lokum meira en tuttugu mörkum á liðunum.

Lovísa Thompson var markahæst hjá Val með sex mörk og gaf að auki fjórar stoðsendingar.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði fimm mörk og þær Elísa Elíasdóttir, Thea Imani Sturludóttir og Sigríður Hauksdóttir voru allar með fjögur mörk. Hafdís Renötudóttir varði 11 skot og 61 prósent skota sem á hana komu.

Sylvía Sigríður Jónsdóttir var markahæst hjá ÍR með fjögur mörk en þær María Leifsdóttir og Ásthildur Bertha Bjarkadóttir skoruðu báðar tvö mörk.

Næsti leikur fer fram á heimavelli ÍR-liðsins á þriðjudagskvöldið en það lið fer í lokaúrslitin sem fyrr vinnur þrjá leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×